Kosta Ríka

Fólksfjöldi: 5,1 milljón

Tungumál: Spænska

Gjaldmiðill: Costa rica colón

Höfuðborg: San José

Country Flag

Kosta Ríka er lítið og tiltölulega fámennt ríki í mið-Ameríku. Landamæri í norðri eru við Níkarakva og í suðri við Panama. Lýðræði á sérstakar rætur í landinu og spilling er afar lítil. Mikið áhersla er lögð á menntun og ein af helstu tekjulindunum er sérhæfð vinna fyrir erlend fyrirtæki í lyfjaiðnaði. Ferðaþjónusta er mikil og lögð er áhersla á vistvæna ferðaþjónustu, enda náttúra landsins geysilega falleg en viðkvæm um leið. Einnig er landbúnaður öflug atvinnugrein og landið þekkt t.d. fyrir gott kaffi. Enginn her er í landinu.

Að sækja um

Fimm opinberir háskólar eru starfræktir í Kosta Ríka og Háskólinn í Kosta Ríka (Universidad de Costa Rica) er af Times Higher Education World University Rankings talinn meðal 600 bestu háskóla heims. Auk þess eru um 50 einkaháskólar og margar stofnanir af ýmsum gerðum sem veita tæknimenntun. Sótt er um beint til háskóla. Athugið sérstaklega að námið sé viðurkennt hér á landi og að Menntasjóður veiti lán til þess.

Námsgráður

Fyrsta stig háskólanáms í Kosta ríka er kallað baccalaureate, sem getur valdið ruglingi vegna þess að lokapróf í framhaldsskóla gengur einnig undir því nafni. Þetta nám tekur 4 ár og að því loknu er hægt að bæta við sig þriggja anna námi sem lýkur með bakkalárprófi. Að því loknu er svo hægt að fara í meistaranám og doktorsnám.

Skólagjöld

Mikill munur er á skólagjöldum einstakra skóla. Opinberir háskólar, sem bjóða fyrst og fremst upp á menntun á spænsku, eru tiltölulega ódýrir en sumir af einkaskólunum (sem oft eru í tengslum við erlenda háskóla) mun dýrari. Nauðsynlegt er að skoða vef hvers skóla fyrir sig til þess að fá upplýsingar um námsgjöld og önnur gjöld.

Leit að námi

Yfir 60 háskólar eru starfræktir í Kosta ríka. Universidad de Costa Rica er þeirra virtastur og er oft talinn upp á ýmsum listum yfir bestu háskóla heims. Háskólinn er í borginni San Pedro, sem er 25 kílómetra fyrir utan höfuðborgina San José. Annar virtur háskóli er Universidad Nacional Costa Rica, sem einnig er oft talinn með á gæðalistum yfir háskóla. Þá eru Universidad Latinoamericana de Ciencia y Tecnología (ULACIT) og Universidad Latina de Costa Rica afar virtar stofnanir.

Margir einkaskólar bjóða einnig upp á nám á háskólastigi. INCAE Business School auglýsir sig sem besta viðskiptaháskóla í Rómönsku Ameríku. EARTH (Escuela de Agricultura de la Region Tropical Humeda), sérhæfir sig í landbúnaðarvísindum. Friðarháskóli Sameinuðu þjóðanna er með rannsóknir í málum tengdum friði í heiminum. Margir tungumálaskólar bjóða upp á spænskunám fyrir erlenda nema sem hyggja á háskólanám í landinu.

Nám á ensku

Á Study abroad in Costa Rica er hægt að finna nám kennt á ensku.

Menntasjóður

Nauðsynlegt er að skoða vel hvort Menntasjóður lánar til náms í Kosta Ríka. Ef skólinn er ekki á lista sjóðsins yfir viðurkennda háskóla, er gott að hafa samband beint við starfsfólk hans.

Að flytja til

Húsnæði

Flestir stóru háskólanna eru með eigin stúdentagarða og eru tenglar á umsóknir á vefjum þeirra. Hins vegar er algengt að stúdentar leigi sér íbúðir, jafnvel nokkrir saman. Það getur þú verið erfitt að finna húsnæði og ganga frá leigusamningum án þess að vera í landinu og því getur verið gott að byrja á stúdentagarði og nota fyrstu önnina til að leita að einhverju betra. Húsaleigan fer vitaskuld eftir stærð og gæðum íbúðarinnar en er afar lág á íslenskan mælikvarða.

Sendiráð

Sendiráð Íslands við Kosta ríka er í Ottawa í Kanada og sendiráð Kosta ríka við Ísland er í London. Nauðsynlegt er að sækja um vegabréfsáritun sem nemandi. Með umsókninni þarf að fylgja með vottað ljósrit af fæðingarvottorði, vottað ljósrit af sakavottorði, vottað ljósrit af vegabréfi sem er í gildi a.m.k. 6 mánuði eftir að fyrirhugaðri dvöl í landinu lýkur, bréf frá háskólanum sem staðfestir skólavist, staðfesting banka eða lánasjóðs um að viðkomandi geti séð fyrir sér meðal á dvöl í landinu stendur, þrjár passamyndir í lit og greiðsla fyrir áritunina.

Reynslusögur

Styrkir

Tenglar