Perú

Fólksfjöldi: 33,5 milljónir

Tungumál: Spænska, quechua og aymara

Gjaldmiðill: Sol

Höfuðborg: Lima

Country Flag

Perú er land í vesturhluta Suður-Ameríku, með landamæri að Ekvador og Kólumbíu í norðri, Brasilíu í austri, Bólivíu í austri, suðaustri og suðri og Chile í suðri. Í vestri liggur landið að Kyrrahafinu. Náttúra landsins er stórfengleg, með snarbröttum fjöllum þar sem þrífast ótal plöntur sem vaxa nánast hvergi annars staðar og fuglar, spendýr og skriðdýr eru sérstaklega fjölbreytt. Miklar sögulegar minjar um Inka samfélagið forna má finna t.d. í Machu Picchu. Miklar náttúruauðlindir er að finna í Perú og helstu útflutningsvörur landsins eru málmar á borð við kopar, sink og gull, auk jarðolíu.

Að sækja um

Æðri menntun er í boði hjá opinberum og einkareknum háskólum og tækniskólum. Nám í tækniskólum tekur yfirleitt þrjú ár og lýkur með prófi sem veitir starfsréttindi. Háskólar í landinu eru um 150 og eru flestir þeirra reknir af einkaaðilum – 31 háskóli er rekinn af opinberum aðilum. Í höfuðborginni Lima eru 50 háskólar og í Cusco, næststærstu borginni (sem er í rúmlega 3 kílómetra hæð í Andesfjöllunum), eru þrír háskólar sem njóta mikilla vinsælda nemenda sem vilja kynnast menningu fjallabúanna, hvort heldur er nýrri eða mjög fornri.

Tveir perúskir háskólar hafa náð inn á gæðalista Times Higher Education:

Universidad Peruana Cayetano Heredia í Lima sem fær sérstaklega háa einkunn fyrir kennslu og rannsóknir í heilbrigðisgreinum. Skólinn er rekinn af einkaaðilum.

La Pontificia Universidad Católica del Perú er líka rekinn af einkaaðilum en þó ekki í gróðaskini. Skólinn byrjaði sem presta- og lögfræðingaskóli en hefur þróast yfir í að kenna einnig mörg önnur fög, t.d. hagfræði og önnur félagsvísindi.

Flestir þeirra erlendu nema sem stunda nám í Perú eru að læra spænsk málvísindi, sögu eða menningarfræði. Hér er hægt að leita að spænskunámi á ýmsum námsstigum.

Skólaárið hefst í mars og því líkur í lok nóvember eða byrjun desember. Allt nám fer fram á spænsku. Ekki er samræmt umsóknarkerfi fyrir háskóla, heldur er sótt um á vefsíðum hvers skóla.

Námsgráður

Námsgráður eru svipaðar og á Íslandi; bakkalár, meistara og doktorsgráður.

Skólagjöld

Nám í opinberum háskólum er ókeypis en misjafnt er eftir skólum og deildum einkaskóla hversu dýrt það er. Djúpt getur verið á slíkum upplýsingum á vefjum skólanna og getur því reynst nauðsynlegt að senda fyrirspurn á viðkomandi skóla (á spænsku).

Menntasjóður

Nauðsynlegt er að skoða vel hvort Menntasjóður lánar til náms í Perú. Ef skólinn er ekki á lista sjóðsins yfir viðurkennda háskóla, er gott að hafa samband beint við starfsfólk hans.

Að flytja til

Húsnæði

Flestir háskólanna reka eigin stúdentagarða þar sem nemendur deila eldhúsum, baðherbergjum og þvottahúsum. Almennt er ekki gert ráð fyrir að nemendur leigi sér íbúðir en þó er hægt að finna margs konar húsnæði með því að slá inn „residencia estudiante Perú“ á leitarstrengjum. Einnig er hægt að fá aðstoð alþjóðaskrifstofa háskólanna við húsnæðisleit.

Dvalarleyfi

Skækja verður um dvalarleyfi sem nemandi á þriggja mánaða fresti á skrifstofu innflytjendamála (Oficina de Migraciones).

Með umsókninni eiga að fylgja tvær passamyndir, vottorð um að námsmaður geti séð fyrir sér (frá banka eða Menntasjóði), vottorð frá háskóla um skólavist og kvittun fyrir því að skólagjöld hafi verið greidd. Öll þessi skjöl eiga að vera á spænsku. Dvalarleyfi fyrir námsmenn veitir ekki atvinnuleyfi í landinu.

Sendiráð

Perúska sendiráðið er í Stokkhólmi og utanríkisráðuneytið sér um sendiráðstörfin fyrir Íslands hönd.

Tenglar