Íþróttastyrkur í Bandaríkjunum

Viðtal við Margréti Rós Hálfdanardóttur

1. Hvar stundaðir þú námið? Er í Canisius College í borginni Buffalo sem er í New York fylki í Bandaríkjunum

2. Segðu okkur frá náminu þínu? Námið mitt heitir Animal Behavior, Ecology, and Conservation. Í stuttu máli þá læri ég um grundvallar hegðunarmynstur fjölbreyttra dýra og hvað veldur því (hvort sem það er umhverfið, árstíðir, hormón, rándýr, aðrir meðlimir tegundarinnar, mannfólk og.sv.fr.). Einnig læri ég um náttúruvernd þeirra tegunda sem eru í útrýmingarhættu. Þetta nám fellur mjög vel með líffræði „major“ sem ég er að taka einnig, munurinn er að með líffræðinni þá tek ég líffræði kúrsa fyrir lengra komna ásamt efnafræði og eðlisfræði (sem ég hefði ekki þurft að taka ef ég væri bara í Animal Behavior). Ástæðan fyrir því að ég er „double major“ er svo að ég hafi alla þá kúrsa sem ég þarf fyrir dýralæknaskóla í framtíðinni.
3. Afhverju ákvaðstu að fara í nám erlendis? Það eru þrjár ástæður fyrir því. 1. Ég vil vinna með dýrum í framtíðinni og það er ekkert nám í boði fyrir mig á Íslandi sem er dýratengt. 2. Ég hef spilað körfubolta frá því ég var sex ára, og vildi reyna að nýta körfuboltann til að fá skólastyrk. (Þá er best að horfa til Bandaríkjanna)
Ég elska að ferðast og fann þörf á því að breyta um umhverfi.

4. Hvernig er hægt að fá íþróttastyrk? Yfirleitt þá hafa skólar samband við mann en þar sem ég spilaði á Íslandi voru tækifærin á að verða uppgötvuð af háskóla“scout“ mjög takmörkuð. Jafnvel þótt ég hafi verið að spila með yngri landsliðum á Norðurlandamótum, þá voru fáir sem engir Bandaríkjaþjálfarar að fylgjast með því. Þannig að það var engin eftirspurn af mér úti í Bandaríkjunum. Ég tók málin bara í mínar eigin hendur, fór að senda tölvupósta og video-brot af leikjum frá mér og tölfræði, og hélt því áfram stanslaust þangað til að ég náði að kveikja áhuga hjá einhverjum. Ég byrjaði svo að tala á Skype við þjálfarana í Canisius Háskólanum og þeir tóku smá áhættu með mig þar sem ég fór aldrei í heimsókn til þeirra eins og vaninn er með mögulega leikmenn. Þeir semsagt gáfu mér skólastyrk sem ég held þeir sjái ekki eftir í dag, þar sem ég er byrjunarliðsleikmaður hjá þeim og ein af stigahæstu leikmönnunum.

5. Hvernig fer saman að æfa íþróttir á styrk og stunda háskólanám? Þetta er náttúrulega ekki fyrir alla. Að spila íþróttir í efstu deild í Bandaríkjunum eru algjör forréttindi, sem þau láta mann auðvitað vinna fyrir. Æfingar eru 6 sinnum í viku í 2-3 klukkustundir í senn (og oft auka klukkutími fyrir styrktaræfingu nokkrum sinnum í viku). Oft ertu bróðurpart af deginum að gera hluti sem tengjast íþróttinni og þá er lítill tími laus í eitthvað annað en lærdóm fyrir næsta dag. En jafnvel þótt það geti verið erfitt að pússla saman deginum fyrir allt það sem ætlast er af þér þá er þetta, að mínu mati, algjörlega þess virði. Ef þú ert skipulögð manneskja að eðlisfari þá hjálpar það náttúrulega fullt. Ég er auk þess sterkur námsmaður sem gerði allt ferlið mun auðveldara. Ég var til dæmis mjög stressuð yfir að þurfa að læra allt á ensku, sem reyndist svo vera óþarfa stress. Ef þú vilt þetta nógu mikið, þá finnurðu leið til að gera þetta.

6. Áttu góð ráð handa þeim sem hafa áhuga á að stunda nám sitt erlendis? Byrja ferlið snemma. Mitt ferli tók tvö ár, en það var náttúrulega að mestu leiti út af körfuboltanum. Það eru próf sem maður þarf að taka (SAT og TOEFL) sem er gott að klára vel fyrirfram þar sem skólar vilja sjá þær einkunnir. Þú gætir viljað taka prófin aftur (ég tók SAT tvisvar) til að ná betri einkunn. Þessvegna er gott að taka það eins fljótt og þú mögulega treystir þér. Það er líka mikil pappírsvinna sem fylgir þessu ferli (sérstaklega ef þú velur Bandaríkin) svo til að koma í veg fyrir allt stress þá er best að vera með allt á hreinu sem fyrst.

7. Hvað reyndist erfiðast? Að geta ekki farið heim um jólin vegna körfuboltatímabilsins. Sem betur fer þá er tæknin í dag alveg að bjarga manni. Ég var við kvöldmatarborðið og tók þátt í jólasöng og horfði á pakkanna opnaða í gegnum símann.

8. Eitthvað sem kom á óvart? Að bíómyndirnar eru ekkert að ljúga með þessa háskólastemningu. Það er allavega sannleikskorn í því hvernig þær sýna háskólakrakka og háskólamenninguna.