Við fáum oft spurningar um Erasmus+ og því vert að útskýra hér hvernig Erasmus+ nýtist fólki sem fer erlendis í nám

Erasmus+ styrkir eru alla jafna ekki veittir til fulls náms erlendis (nema þegar um er að ræða sérstakt Erasmus+ Mundus meistaranám, sjá fyrir neðan). Erasmus+ er viðbót við þau tækifæri sem nemendur á Íslandi hafa í gegnum samstarfsskóla íslensku háskólanna í útlöndum. Þá geta nemendur tekið 1-2 annir (eða styttri dvalir) í skiptinámi við stofnun sem skólinn á Íslandi er í samstarfi við eða í starfsnámi við vinnustað erlendis. Nemendur fá dvölina erlendis metna inn í námið hér og á dvölin ekki að lengja námsferilinn. Þeir nemendur sem ákveða að fara í skiptinám eða starfsnám til Evrópu geta sótt um Erasmus+ styrk til síns háskóla á Íslandi. Það þarf því alltaf að hafa samband við námsbraut og alþjóðaskrifstofur skólans til að fá nánari upplýsingar....

Hvernig getur Erasmus+ nýst þér í skiptinámi eða starfsnámi?

  • Fjárhagslegur stuðningur: Erasmus+ veitir styrk fyrir ferðakostnað og mánaðarlegan styrk sem nýtist í uppihald á meðan dvölinni stendur. Við ákveðin skilyrði er hægt að fá viðbótarstyrk ofan á mánaðarstyrkinn. Þetta dregur úr fjárhagslegum hindrunum og auðveldar fólki að nýta sér tækifærið.
  • Félagsleg reynsla: Skiptinám eða starfsnám með Erasmus+ gefur nemendum tækifæri til að kynnast fólki frá öllum heimshornum, auka tengslanet sitt og þroskast bæði persónulega og faglega.
  • Þekking og menning: Með því að stunda nám í öðru landi læra nemendur ekki aðeins af kennurum og námskeiðum heldur einnig af menningu og siðum landsins. Þetta hjálpar þeim að víkka sjóndeildarhringinn og dýpka skilning á ýmsum alþjóðamálum.
a close-up looking up towards the bridge posts on Erasmusbridge in Holland

Erasmus Mundus er sérstakt meistaranám á vegum Erasmus+ þar sem nemendur fá tækifæri til að stunda nám í tveimur eða fleiri löndum. Námið er hannað til að veita nemendum djúpa þekkingu á sérhæfðu sviði í alþjóðlegu umhverfi.

Hvað gerir Erasmus Mundus sérstakt?

  • Sameiginleg námsgráða: Nemendur fá sameiginlega gráðu frá háskólunum sem taka þátt í náminu, sem gefur þeim sterkan alþjóðlegan bakgrunn.
  • Fjárhagsstuðningur: Erasmus Mundus veitir veglegan styrk til framúrskarandi nemenda sem dekkar skólagjöld, ferðakostnað og daglegt líf.
  • Aðgengi fyrir alla: Þetta er frábært val fyrir þau sem vilja kafa dýpra í alþjóðlegt nám og öðlast reynslu frá mörgum löndum.

Bæði Erasmus+ og Erasmus Mundus bjóða einstök tækifæri fyrir nemendur sem vilja víkka sjóndeildarhringinn og öðlast dýrmæta alþjóðlega reynslu.