Bandaríkin

Fólksfjöldi: 330 milljónir

Tungumál: Enska, spænska, önnur evrópsk tungumál og pólýneska

Gjaldmiðill: USD ($)

Höfuðborg: Washington

Country Flag

Bandaríkin eru sambandslýðveldi og samanstanda af 50 ríkjum. Landið er það fjórða stærsta í heiminum. Þar er að finna um 4.000 skóla á háskólastigi og sumir bestu háskólar í heimi eru þar.

Íslendingar hafa mikið sótt í nám til Bandaríkjanna í gegnum tíðina. Bandarískir háskólar eru mjög misjafnir að uppbyggingu og gæðum. Sjálfsagt er að kynna sér hvort skólarnir hafa faglega viðurkenningu, bæði í heild og einnig á því sérsviði sem er verið að sækja um inngöngu í. Hægt er að ganga að því vísu að ríkisskólar séu almennt viðurkenndir, en tryggara er að spyrjast fyrir um viðurkenningu einkaskóla. Einnig er hægt að athuga hvernig einstakir skólar eru metnir í ýmsum handbókum hlutlausra aðila, sem hafa tekið saman upplýsingar um bandaríska háskóla.

Að sækja um

Skólaárið er vanalega frá ágúst/september til maí og skiptist í tvær eða þrjár annir, en oft er einnig möguleiki á að flýta fyrir sér í námi með því að nýta sumarannir, sem er boðið upp á í flestum skólum.

Umsóknarfrestur er mismunandi eftir skólum. Ráðlegt er að hefja undirbúning umsóknar tímanlega, helst einu og hálfu ári áður en áætlað er að hefja nám. Athugið að stundum þarf að greiða umsóknargjald sem ekki fæst endurgreitt fái fólk ekki skólavist. Umsóknareyðublöð eru yfirleitt á vefjum viðkomandi skóla og þar er greint frá hvaða fylgigögnum ber að skila.

Vegna þess hve úrvalið af skólum og námsbrautum er mikið, er sjálfsagt að taka tillit til þátta eins og staðsetningar, veðurfars og umhverfis. Athugið að innanlandsflug í Bandaríkjunum er oft álíka dýrt og farmiði til Íslands og því ber að hafa staðsetningu „íslenskra flugvalla“ í huga ef margir skólar koma til greina.

Ráðlegt er að sækja um inngöngu í fleiri en einn skóla og ekki einskorða umsóknir við þekktustu skólana, því að samkeppni um skólavist í bestu skólunum er mjög hörð (hjá sumum háskólum komast innan við 5% umsækjenda að). Einnig er rétt að huga að reglum Menntasjóðs Námsmanna (MSN) um lán til greiðslu skólagjalda og ættu allir að kynna sér þær  vel áður en teknar eru ákvarðanir um nám í Bandaríkjunum.

Nánast allir sem sækja um nám í Bandaríkjunum, hvort sem um er að ræða undergraduate eða graduate nám, þurfa að taka TOEFL prófið (Test of English as a Foreign Language). Frekari upplýsingar um TOEFL má lesa hér

Hér fyrir neðan er listi af prófum sem gæti þurft að taka til að komast inn í grunnnám (undergraduate degree) í Bandaríkjunum. Hægt er að lesa nánar um prófin og hvar þau eru haldin á Íslandi á vef Fulbright.

SAT – Scholastic Aptitude Test (Grunnnám)

Skylt er að taka SAT prófið fyrir grunnnám í mörgum bandarískum háskólum. En prófið er hannað til þess að skoða þekkingu bandarískra nemenda eftir high school. 

Til eru tvær gerðir af prófinu:

1. SAT – Reasoning test: Prófar þekkingu og færni í lestri, skriflegri færni og stærðfræði. Lestrarhlutinn á að meta lesskilning og setningarfræði (200-800 stig). Skriflegi hlutinn krefst þess að skrifuð sé stutt ritgerð og spurt er út í málfræði (200-800 stig). Stærðfræði hluti prófsins prófar m.a. algebru, líkindareiknig og tölfræði (200-800 stig).

2. SAT – Subject test: Prófar þekkingu í sérstökum fögum.

Einnig eru sérstök próf fyrir eftirfarandi fög:

  • Enska
  • Saga
  • Stærðfræði
  • Náttúrufræði (líffræði, efnafræði og eðlisfræði)
  • Málvísindi

Verzlunarskóli Íslands heldur SAT prófin á Íslandi. Skráning fer eingöngu fram á vef SAT með 4 vikna fyrirvara. Prófgjaldið er á bilinu 50-70 $, eftir því hvort skrifuð er ritgerð.

ACT – American College Test (Grunnnám)

ACT er annað inntökupróf í grunnnám í Bandaríkjunum. Það er þekkingarpróf í námsefni “high school” þar í landi og er prófað í stærðfræði, líffræði, eðlisfræði og ensku. Oftast er hægt að taka ACT prófið í stað SAT en gott er að fá það staðfest af skólanum úti.

Skráning í prófin fer eingöngu fram á vef ACT með 5 vikna fyrirvara. Verð 60-80 USD. Prófið fer fram hjá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði.

GMAT – Graduate Management Admission Test (Framhaldsnám)

Próf sem flestum er skylt að taka ætli þeir í hagfræði eða viðskiptatengt nám, þar með talið MBA nám.

Prófið skiptist í fjóra hluta og tekur u.þ.b. þrjá og hálfan klukkutíma. Hlutarnir fjóru eru:

1. Analytical Writing Assessment (30 mín)
2. Intergrated Reasoning (30 mín)
3. Quantitative (75 mín)
4. Verbal (75 mín)

Nánari upplýsingar um prófið og verð má lesa á heimasíðu GMAT.

GRE – Graduate Record Exam (Framhaldsnám)

Próf ætlað fyrir þá sem ætla í framhaldsnám (graduate studies) í Bandaríkjunum. Bæði er hægt að taka almennt próf og subject -test. Hið almenna er það sem flestir taka. Athugið: síðustu ár hefur GRE-prófið verið í auknum mæli valfrjálst í námsumsóknum. Gæta þarf að athugun á hverri námsbraut fyrir sig um hvort þurfi að taka prófið eða ekki. Ef það stendur að GRE sé „optional“ þá fer það alveg eftir vilja umsækjanda hvort hann þreytir prófið eða ekki. Það hefur ávallt engin áhrif á gæði umsóknargagna ef umsækjandi kýs ekki að þreyta prófið ef það er „optional“. Hafa þarf í huga að hver skóli setur sínar aðgangskröfur og best er að hafa samband við skólann sjálfan í gegnum tölvupóst eða síma ef einhver vafi er á.

GRE prófar færni í

  • Verbal Reasoning
  • Quantitative Reasoning
  • Analytical Reasoning

Prófstaður fyrir almenn GRE®-próf (GRE® General Test) á Íslandi er hjá PROMENNT í Skeifunni og fara þau fram í tölvuveri (Computer Based Test). Nánari upplýsingar, verð og skráning.

Skráningarfrestur rennur út u.þ.b. 5 vikum fyrir settan prófdag, en próftökum er bent á að skrá sig tímanlega. Bent skal á að á prófstað þurfa próftakar að framvísa gildum skilríkjum (vegabréfi eða ökuskírteini). Þeir þurfa einnig að hafa með sér GRE Admission Ticket.

Nánari upplýsingar um GRE-próf og skráningu í þau má fá á vefsetri ETS.

Námsgráður

Grunnnám (Undergraduate level)

Stúdentspróf og háskólapróf eru vísasti vegurinn til að fá inngöngu í bandaríska háskóla, en þó finna aðra möguleika fyrir þá sem ekki hafa þessi próf. Hins vegar er afar misjafnt hvernig bandarískir háskólar meta íslenskt stúdentspróf og er alfarið undir viðkomandi skóla komið hvort og þá hversu mikið það próf verður metið til að stytta byrjunarnám (undergraduate level). Varðandi þetta þarf að senda fyrirspurnir til skólanna sem sótt er um inngöngu í.

Fyrsta skrefið er að skoða á netinu umsóknareyðublöð og aðrar upplýsingar. Skoðið einnig heimasíðu Fulbrightstofnunarinnar.

Það er einnig gott að senda inn fyrirspurnir til alþjóðaskrifstofu þess skóla sem um ræðir (International office).  Til þess að skólarnir geti svarað öllum spurningum þarf að vanda þessa beiðni. Rétt er að þar komi strax fram helstu upplýsingar um námsferil, námsáætlanir, enskukunnáttu og fjárhagslega getu til að stunda viðkomandi nám. Jafnframt skal spyrjast fyrir um hvernig fyrra nám verði metið, hvaða möguleikar séu á styrkjum og hvaða stöðupróf sé ætlast til að viðkomandi taki áður en umsókn verður tekin til athugunar hjá viðkomandi skóla. Leggið áherslu á að fá svar við þessum spurningum því oft senda skólarnir frá sér staðlaða upplýsingapakka.
Umsóknareyðublöðin skýra sig sjálf en ganga skal vel frá öllum fylgibréfum. Hafið eftirfarandi í huga:

1. Afrit af prófskírteini á að vera á ensku ásamt útskýringum á einkunnaskala og kennsluefni námskeiða. Ef sótt er um mat á námskeiðum (transfer credit) er mikilvægt að upplýsingar um kennsluefni séu sem ítarlegastar. Allt skal þetta staðfest af skóla eða löggiltum skjalaþýðanda.
2. Biðjið kennara að vanda meðmæli. Látið meðmælanda fá frímerkt umslag með heimilisfangi skóla og með nafni umsækjanda í neðra vinstra horni. Oft senda skólarnir stöðluð meðmælabréfsform.
3. Fáið vottorð hjá Menntasjóði um væntanlegan stuðning þeirra og fullvissið ykkur um að námið sé lánshæft.
4. Þegar send er greiðsla til skólans (annað hvort fyrir bara það að sækja um eða þegar greidd eru skólagjöld (tuition fee)) er áríðandi að merkja greiðsluna vel og biðja um kvittun.
5. Lesið umsóknina vel yfir og gangið úr skugga um að hún sé í lagi.

Ekki kemur að sök þó að sótt sé um skóla og lokaprófi í yfirstandandi námi ljúki ekki fyrr en eftir að umsóknarfrestur rennur út. Látið þess getið að þið munið senda lokaprófskírteini við fyrsta tækifæri. Þegar svör fara að berast þarf að senda skriflegt afsvar til þeirra skóla sem ekki verða fyrir valinu.

Framhaldsnám (Graduate level)

Umsækjendur um framhaldsnám (graduate level) ættu, eftir því sem kostur er, að afla upplýsinga um deildir og fræðistörf kennara á sínum sérsviðum við þá skóla sem þeir hyggjast sækja um inngöngu í. Sérhæfing og orðspor deilda og einstakra kennara kann að skipta umsækjendur meira máli en almenn staða skólanna, þar sem umsækjendur í framhaldsnámi eru oftast að leita eftir ákveðinni sérþekkingu með námi sínu.

Þegar sótt er um doktorsnám (PhD) í bandarískum háskóla er ávallt gott að hafa samband við áætlaðan leiðbeinanda eftir að umsækjandi er búinn að afla sér upplýsingar um skólann og starfsfólk áður en sótt er um námið. Einnig er vert að hafa í huga að flestir doktorsnemar í bandarískum háskólum fá „skólastyrk" til þess að geta stundað nám við skólann, doktorsnemar sinna þá aðstoðarkennslu (Teaching Assistant) í staðinn. Athugið að doktorsnám í Bandaríkjunum getur verið 5 til 7 ára nám.

Skólagjöld

Skólagjöld (tuition fees) eru há, en geta þó verið mjög mishá. Eins og víða annars staðar er mikil samkeppni milli einstakra skóla, en gott er að hafa í huga að ekki fylgist alltaf að verð og gæði. Bæði einkaskólar og ríkisreknir innheimta skólagjöld og eru þau yfirleitt hærri við einkaskólana, þótt það sé alls ekki algilt.

Í ríkisreknu skólunum er yfirleitt um að ræða tvo verðflokka, einn fyrir þá sem búa í viðkomandi ríki (in-state tuition) og annar verðflokkur fyrir alla aðra námsmenn (out-of-state tuition), sem eru mun hærri. Skólagjöd við ríkisskólana eru á bilinu 8.000$ – 20.000$ á ári (out-of-state), en við einkaskólana eru þau gjarnan á bilinu 15.000$ – 30.000$ á ári. Þetta eru viðmiðunargjöld, þau geta bæði verið lægri og hærri.

Frekar litlir möguleikar eru á því að fá námsstyrki fyrr en fólk er komið í framhaldsnám (graduate). Þó er ekki útilokað að fá námsstyrk í grunnnámi eins og t.d. íþróttastyrk.

Að finna nám

Til eru um 4.000 skólar á háskólastigi í Bandaríkjunum þar af um 1.800 sem veita bachelor gráðu eða hærri gráður. Þó nokkuð stór hluti skóla á háskólastigi eru svokallaðar community colleges eða junior colleges sem eru með tveggja ára nám og veita associate gráðu.

Háskólar í Bandaríkjunum

Leit að námi

Gradschools.com – mjög góð leitarvél fyrir framhaldsnám (graduate) í Bandaríkjunum.
College Sport Scholarships – leitarvél fyrir íþróttastyrki.

EduPass – þessi síða veitir upplýsingar fyrir þá sem huga að námi í Bandaríkjunum

CollegeNET, góð síða um “undergraduate” nám í Bandaríkjunum. Hægt að leita að “2-year college”, “4-year college”, “Voc/Tech College” o.fl. Styrkir, umsóknareyðublöð (online).

Starfsnám, tæknimenntun, iðnnám,  hægt að leita eftir fylkjum, eingöngu einkaskólar.

Community Colleges.

Læknisfræði, tannlækningar, dýralækningar, lögfræði:

Til þess að stunda nám í þessum fögum, þarf fyrst að klára bachelor gráðu. Nemendur kjósa ávallt að sérsníða grunnnámið sitt eftir því sem þeir ætlast til að sækja um, hér er oft talað um að vera „pre-law" eða „pre-med", ekki er verið að tala um ákveðið grunnnám í strangri merkingu. Nemandi sem ætlar sér t.d. að fara í lögfræði gæti tekið heimspeki, sagnfræði, stjórnmálafræði eða sambærilegt í grunnnámi og sótt svo um lögfræðinám (Law School). Auk þess að hafa lokið grunnnámsgráðu þarf að þreyta inntökupróf lögfræðináms eða LSAT (Law School Admissions Test).

Aðeins öðruvísi kröfur gilda fyrir læknisfræði. Eins og í lögfræðinni er ekkert nám sem heitir í raun „pre-med" heldur er það hugtak yfir grunnnámskeið sem hægt er að klára í grunnnámi í t.d. líffræði eða efnafræði. Ólíkt lögfræðinni eru þessi námskeið forkröfur fyrir áframhaldandi læknisnám (Medical School). Nemendur þurfa einnig að þreyta inntökuprófi í áframhaldandi læknisnám MCAT (Medical College Admissions Test) sem þeir taka á síðasta árinu í grunnnámi sínu.

Fulbright stofnunin

Almennar upplýsingar um nám í Bandaríkjunum fást hjá Fulbright stofnuninni, Hverfisgötu 105, Reykjavík. Stofnunin býður upp á styrki fyrir íslenska námsmenn og fræðimenn sem óska eftir því að stunda nám í Bandaríkjunum. Umsóknarfresturinn er um miðjan október fyrir næstkomandi skólaár en allar upplýsingar er hægt að finna á heimasíðu Fulbright. Athugið að bandarískir ríkisborgarar og þeir Íslendingar með tvöfaldan ríkisborgararétt (Ísland og Bandaríkin) geta ekki sótt um styrk til náms í Bandaríkjunum á vegum Fulbright á Íslandi.

Menntasjóður Námsmanna

Mikilvægt er að kynna sér úthlutanreglur Menntasjóðs bæði hvað varðar framfærslu- og skólgjaldalán. Menntasjóður Námsmanna lánar einungis upp að vissu marki sem þarf að hafa í huga við umsókn í háskóla í Bandaríkjunum.

Reynslusögur

Styrkir

Tenglar