Finnland

Fólksfjöldi: 5,5 milljónir

Tungumál: Finnska

Gjaldmiðill: Evra

Höfuðborg: Helsinki

Country Flag

Finnland (Suomi) er eitt Norðurlandanna. Álandseyjarí Eystrasaltinu eru undir finnskri stjórn en njóta víðtækrar sjálfstjórnar. Finnland er stundum nefnt Þúsundvatnalandið. Menntakerfi landsins þykir almennt til fyrirmyndar og mörg lönd horfa til finnska menntakerfisins hvað varðar skipulag þess og útfærslu. Þó opinber tungumál séu bæði finnska og sænska er sænskan fyrst of fremst notuð á litlu svæði í vestanverðu Finnlandi og á Álandseyjum. Tæp 90% landsmanna hafa finnsku að móðurmáli.

Að sækja um

Finnland er það Norðurlandanna sem er með flesta skóla á háskólastigi: 16 almenna háskóla og tvo tækniháskóla. Skólaárið skiptist í tvennt; haust- og vormisseri. Fjöldatakmarkanir eru í flestum deildum. Námið byggir á einingakerfi. Fullt nám í eitt misseri er almennt 20 einingar eða 40 einingar fyrir veturinn, þó er þetta mismunandi eftir námsbrautum. Hins vegar eru Finnar ekki eins uppteknir af einingum og Íslendingar og því getur verið misjafnt hversu margar einingar hægt er að taka á önn og fer það eftir framboði námskeiða og vinnuálagi í hverju námskeiði fyrir sig. Athugið að þetta getur komið sér illa gagnvart Menntasjóði, sem veitir aðeins fullt námslán sé fullt nám stundað skv. námsbrautinni.

Listnám í Finnlandi tekur að meðaltali 4–6 ár og í flestum tilvikum fara fram inntökupróf í listnám. Þar eru fjöldatakmarkanir viðhafðar.

Á undanförnum árum hefur námsframboð á ensku aukist auk náms á öðrum tungumálum, s.s. frönsku, þýsku og sænsku. Åbu Akademi er sænskur háskóli og kennir alfarið á sænsku.

Sótt er um rafrænt á vefnum Studyinfo.fi þar sem hægt er að velja enskt, finnskt eða sænskt viðmót.

Sumarháskólar í Finnlandi bjóða upp á finnskunám á 10 mismunandi námsstigum. Einnig er boðið upp á fjarnám.

Námsgráður

Nám á háskólastigi í Finnlandi skiptist í meginatriðum í tvennt:

  • almennt háskólanám þar sem mikil áhersla er lögð á rannsóknir. Þar er uppbyggingin svipuð og í íslenskum háskólum, með bakkalár-, meistara- og doktorsnámi.
  • fagháskólanám (Ammattikorkeakoulut/universities of applied sciences) sem skiptist í ótal verkgreinar. Þar er einnig boðið upp á bakkalár og meistaranám, en doktrorsnám er ekki í boði.

Skólagjöld

Almennt eru engin skólagjöld í Finnlandi, þó um einstaka undantekningar kunni að vera að ræða sé kennt á ensku.

Lækur í Saarijärvi, Finnlandi. Mynd tekin af Tapio Haaja

Leit að námi

Studyinfo.fi er námsleitarvefur. Leitarmál enska, sænska og finnska.

Studentum.fi er leitarsíða að námi eftir tungumáli sem kennsla fer fram á, þ.e. finnsku eða sænsku.

Vefurinn Study in Finland inniheldur mjög greinargóðar upplýsingar á ensku fyrir erlenda nemendur í Finnlandi.

Nám á ensku

Á vefnum Study in Finland er hægt að leita að öllu námi sem kennt er á ensku.

Menntasjóður

Menntasjóður

Námsmenn geta fengið námslán vegna tungumálanámskeiða ef það er nauðsynlegur undirbúningur undir frekara nám í landinu. Lánið er ekki greitt út fyrr en sýnt hefur verið fram á innritun í lánshæft nám í sama landi eða málsvæði.

Að flytja til

Dvalarleyfi
Þegar námsmenn koma til Finnlands þurfa þeir að skrá sig inn í landið. Þá er mikilvægt að hafa með sér vottorð um skólavist (acceptance letter) og fjárhagsvottorð (t.d. frá Menntasjóði eða banka) sem staðfestir að námsmenn geti fjármagnað dvöl sína í landinu. Einnig er mikilvægt að hafa með sér Evrópska sjúkratryggingakortið  og gilt vegabréf. 

Húsnæði
Í Helsinki og nágrenni sér HOAS (Helsinki Student Housing Foundation) um flesta stúdentagarða. Mælt er með að námsmenn setji sig í samband um leið og skólavist hefur fengist staðfest til að auka líkur á að komast inn á stúdentagarða. 

SOA – Stúdentagarðar í Finnlandi

CasaSwap.com – International youth & student accommodation network. Hérna geta stúdentar í leit að húsnæði erlendis skráð sig í húsnæðisleit og einnig skráð sitt húsnæði til leigu eða skipta. Casa Swap er styrkt af Evrópusambandinu.

Einnig er nokkuð um að nemendafélög háskólanna leigi út húsnæði til félagsmanna sinna.

Íslendingafélag
Félag Íslendinga í Finnlandi

Sendiráð
Krækja á upplýsingar um íslenska sendiráðið í Helsinki og finnska sendiráðið í Reykjavík. 

Námsmenn með börn
Námsmenn hafa sama rétt og aðrir til dagheimilisplássa og dagvistunargjöld taka mið af fjárhag foreldra.

Reynslusögur

Styrkir

Tenglar