Japan

Fólksfjöldi: 126.5 milljónir

Tungumál: Japanska

Gjaldmiðill: Jen

Höfuðborg: Tókýó

Country Flag

Japan (Nippon/Nihon日本 (táknin merkja sól og rætur/uppruna) er eyríki í Austur-Asíu, staðsett austur af Kóreuskaga og vestarlega í Kyrrahafinu. Nafnið er oft þýtt Land rísandi sólar og er sú þýðing ættuð úr kínversku. Tókýó, höfuðborg Japans, er með stærstu borgum heims. Japanseyjar eru á hinum svonefnda eldhring sem umlykur Kyrrahaf og er mjög virkt jarðskjálfta- og eldfjallasvæði. Stórir jarðskjálftar geta riðið yfir hvar sem er í Japan og má reikna með nokkrum slíkum á hverri öld. Í Japan má víða finna heitar uppsprettur og við sumar þeirra hafa verið byggðir baðstaðir og heilsuhæli, ekki ósvipað Bláa lóninu á Íslandi. Iðnaðarframleiðsla í landinu er mikil og japanskar vörur þykja almennt mjög vandaðar.

Að sækja um

Gefið ykkur góðan tíma til að sækja um, því búast má við að meðhöndlun umsókna taki langan tíma. Leitið upplýsinga hjá ræðismanni um útvegun dvalarleyfis. Þeir sem sem fara til Japan og eru ekki á styrk frá japanska menntamálaráðuneytinu (Monbusho), þurfa að útvega sér ábyrgðarmann í Japan. Rétt er að ráðfæra sig við háskólana um útvegun hans.

Sótt er um beint til viðkomandi skóla. Best er að setja sig í samband við skólann í gegnum tölvupóst eða hringja og biðja um upplýsingar um umsóknareyðublöð og hvað þurfi að fylgja umsókn. Ef kennt er á japönsku getur þurft að taka japönskupróf, en TOEFL próf ef sótt er um nám kennt á ensku. Stúdentspróf er nauðsynlegt og yfirleitt þarf að taka inntökupróf. 

Háskólar í Japan skiptast í eftirfarandi flokka:

  • Daigaku (háskólar)
  • Daigaku-in (háskólar sem eingöngu bjóða upp á framhaldsnám)
  • Tanki-Daigaku (háskólasetur)
  • Koto Senmon Gakko (tækniskólar)
  • Senmon Gakko (fagháskólar)

Nær allt háskólanám í Japan fer fram á japönsku (sjá þó að neðan upplýsingar um nám á ensku). Nauðsynlegt er að hafa lokið prófi í japönsku sem öðru tungumáli (Japanese-Language Proficiancy Test eða JLPT). Um er að ræða tvö þrep, það lægra miðað við 600 stunda nám og það hærra miðað við 900 stundir. Ekki hefur verið boðið upp á þessi próf hér á landi en á þessum vef eru upplýsingar um prófstaði víða um heim og margskonar aðrar gagnlegar upplýsingar um prófið sjálft og undirbúning undir það. Til að fara í meistaranám er nauðsynlegt að hafa JLPT 1 og í bachelornám þarf JLPT 2. Margir háskólar bjóða upp á japönskunám fyrir nýnema og er Háskóli Íslands einn þeirra.

Námsgráður

Erlendir nemar geta sótt um fimm tegundir æðra náms í Japan:

  • grunnnám í háskóla (universities) – 4 ár nema lækningar, dýralækningar og tannlækningar taka 6 ár. Frekari upplýsingar eru hér.
  • framhaldsnám á háskólastigi (graduate schools), þ.e. meistara eða doktorsnám. Hið fyrrnefnda tekur a.m.k. 2 ár og það síðarnefnda 5 ár (2 ár + 3 ár). Doktorsnám í lækningum, dýralækningum og tannlækningum tekur þó 4 ár. Frekari upplýsingar eru hér.
  • nám í háskólasetrum (junior collages). Námið tekur 2-3 ár og er einkum í hugvísindum, menntafræðum, félagsvísindum og hagfræði.
  • starfsmenntun að loknu framhaldskólanámi (special training collages). Boðið er upp á nám á háu stigi í tæknigreinum og tekur það 1-4 ár. Frekari upplýsingar eru hér.
  • tækniskólanám (collages of technology). Nám á framhaldsskólastigi sem tekur 5 ár. Frekari upplýsingar eru hér.

Auk þessa er hægt að sækja margs konar nám í japönsku sem erlendu tungumáli fyrir þá sem vilja læra á japönsku. Frekari upplýsingar eru hér.

Skólagjöld

Allir japanskir háskólar innheimta skólagjöld. Þau geta verið mjög breytileg en eru oftast á bilinu 820.000 yen upp í 1.640.000 yen.

Japanska menntamálaráðuneytið veitir árlega styrki til Íslendinga til náms í Japan. Annars vegar til stúdenta sem nema japönsku og hins vegar til nema í framhaldsnámi/rannsóknanámi, eftir bakkalárgráðu.

Leit að námi

Leitarvél á ensku að námi í Japan

Nám á ensku

Flestir japönsku háskólanna kenna á japönsku. Þó eru a.m.k. fjórir stórir háskólar sem bjóða nám á ensku:

Menntasjóður

Menntasjóður

Sé farið til Japan í annað nám en japönsku er veitt lán til undirbúningsnáms í tungumálinu í allt að tvö misseri (þrjá fjórðunga þar sem það á við) en athugið að lánið er bundið því skilyrði að áframhaldandi nám verði stundað í Japan. Skilyrði fyrir útborgun lánsins er að vottorði um inngöngu í áframhaldandi nám sé skilað inn til Menntasjóðs. Athugið einnig að gefið er út sér skuldabréf fyrir þetta lán. Því þarf að ganga frá nýju skuldabréfi fyrir lán sem veitt er fyrir áframhaldandi nám.

Stjórnvöld í Japan veita einn styrk árlega til 18 – 24 mánaða náms í Japan (lengd styrksins fer eftir því hvort nám er hafið að vori eða hausti). Sagt er frá styrknum í fréttum hér á Farabara.

Að flytja til

Dvalarleyfi

Fyrir þá sem hyggjast dvelja meira en tvo mánuði í Japan er nauðsynlegt að sækja um dvalarleyfi. Þá þarf vottorð um skólavist og fjárhagsvottorð. Rétt er að fara að huga að umsókn um dvalarleyfi a.m.k. þremur mánuðum fyrir brottför. Hafið samband við sendiráðið.

Húsnæði

Margir háskólar eiga eigin stúdentagarða þar sem hugsanlega er hægt að fá herbergi. Hafa skal samband við viðkomandi skóla til að leita upplýsinga. Í stóru borgunum er húsaleiga mjög há, því hærri sem komið er nær miðborginni. Athugið sérstaklega hvort leyfilegt er að vera með næturgesti ef fjölskyldan frá Íslandi skyndi vilja koma í heimsókn.

Flytji námsmaður ekki lögheimili sitt heldur hann tryggingu sinni hjá Sjúkratryggingum Íslands. Þetta gildir einnig um fjölskyldumeðlimi sem fara með námsmanninum til námslandsins. Hægt er að fá vottorð hjá stofnuninni sem staðfestir þetta. Læknisþjónusta er góð og er að stærstum hluta greidd niður af tryggingum sem fólk verður að kaupa, en þær eru ekki mjög dýrar. Sjá nánar kaflann um tryggingamál námsmanna erlendis. 

Sendiráð

Krækja á íslenska og japanska sendiráðið.

Íslendingafélag

Félag Íslendinga í Japan

Styrkir

Tenglar