Kólumbía
Fólksfjöldi: 51,5 milljónir
Tungumál: Spænska
Gjaldmiðill: Kólumbískur pesói
Höfuðborg: Bógóta
Kólumbía er land í norðvesturhluta Suður-Ameríku með landamæri að Venesúela og Brasilíu í austri, Ekvador og Perú í suðri og Panama í norðvestri. Það á strönd að Karíbahafi í norðri og Kyrrahafinu í vestri. Kólumbía ræður yfir stórum eyjaklasa í Karíbahafi, San Andrés y Providencia, undan strönd Níkaragva. Kólumbía er eitt af sautján löndum heims með mesta líffjölbreytni. Landið nær yfir regnskóga á Amasónsvæðinu, Andesfjöll og hitabeltisgresjur. Kólumbía er þriðja fjölmennasta ríki Rómönsku Ameríku og þriðja stærsta hagkerfið á eftir Brasilíu og Mexíkó. Flestar stærstu borgir landsins, eins og Bógóta og Medellín, standa á hásléttum í Andesfjöllum. Helstu útflutningsafurðir Kólumbíu eru olía og kol, en landið er líka þekkt fyrir framleiðslu smaragða, kaffis og pappírs meðal annars.
Að sækja um
Stjórnvöld í Kólumbíu hafa á undanförum árum varið háum fjárhæðum til menntamála og hafa langt mikið á sig til að laða erlenda nemendur til landsins. Um 70% af háskólum landsins eru í einkaeigu og eru sumir þeirra í tengslum með erlenda háskóla. Tuttugu háskólar eru viðurkenndir af kólumbískum stjórnvöldum og mega eingöngu erlendir nemendur sækja um skólavist í þeim.
Þrír kólumbískir háskólar hafa komist inn á alþjóðlega gæðalista og hefur Universidad de los Andes komist hæst á slíkum lista. Þar eru skólagjöld hins vegar mjög há en bæði Universidad Nacional de Colombia og Universidad Externado de Colombia sem náð hafa inn á slíka gæðalista innheimta lægri skólagjöld.
Allir nemendur sem dvelja í Kólumbíu í meira en 6 mánuði þurfa að fá sérstaka áritun sem kölluð er M (migrant). Þessi áritun veitir ekki leyfi til að vinna í landinu. Sótt er um áritunina á netinu en síðan þarf að framvísa vegabréfinu við komuna til landsins til þess að fá viðeigandi stimpil hjá utanríkisráðuneytinu (Ministerio de Relaciones Exteriores) í Bógóta.
Með umsókn um áritun þurfa að fylgja eftirfarandi gögn:
- Ljósrit af upplýsingasíðu í vegabréfi
- Ef áritun til landsins hefur áður verið veitt, þarf einnig ljósrit af þeirri síðu
- Vottorð um skólavist
- Ljósrit af opinberri skráningu skólans
- Staðfesting lánasjóðs, foreldra eða banka um að námsmaður geti séð fyrir sér
- Passamynd með hvítum bakgrunni.
Námsgráður
Háskólanám skiptist í grunnnám (under-graduate) og framhaldsnám (post-graduate). Algengast er að grunnnámið taki 5 ár en tækninám tekur þó oftast aðeins 3. Framhaldsnám er síðan á meistara og doktorsstigi. Mjög algengt er að nemendur þurfi að þreyta inntökupróf í skólana.
Skólagjöld
Gjöld í opinberum háskólum í Kólumbíu fara eftir tekjum foreldra. Þar sem meðaltekjur í landinu eru lágar á íslenskan mælikvarða, geta Íslendingar átt von á því að borga milli 150.000 og 200.000 ISK á önn fyrir nám í ríkisreknum háskólum. Einkaháskólar eru mun dýrari og skólagjöld geta verið yfir 600.000 ISK á önn.
Leit að námi
Ekki er til nein ein leitarvél sem sýnir allt nám í Kólumbíu. Því er nauðsynlegt að leita fanga víða og byrja á að skoða stærstu skólana. Ýmsar hagnýtar upplýsingar er að finna á Colombia.co.
Spænska fyrir útlendinga í Kólumbíu.
Nám á ensku
Framboð á námi á ensku í Kólumbíu hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum, sem helst í hendur við tilraunir stjórnvalda til þess að fá erlenda háskólanemendur til landsins. Í krækjunum hér að neðan má finna tvær leitarvélar sem einkum benda á nám á ensku.
Menntasjóður
Nauðsynlegt er að skoða vel hvort Menntasjóður lánar til náms í Kólumbíu. Ef skólinn er ekki á lista sjóðsins yfir viðurkennda háskóla, er gott að hafa samband beint við starfsfólk hans.
Að flytja til
Margar spurningar þeirra sem hugleiða nám í Kólumbíu snúa að því hvort þar sé öruggt að búa. Eftir mikil innanlandsátök, þar sem skæruliðasamtökin FARC tókust á við stjórnvöld, var saminn friður árið 2016 og virðist hann hafa haldist. Hinu er ekki að leyna að framleiðsla á eiturlyfjum er mikil og átök milli mismunandi glæpaklíka því ekki óalgeng. Stjórnvöld hafa unnið markvisst að því að handtaka helstu barónana og framselja suma þeirra til Bandaríkjanna, þar sem þeir hafa hlotið þunga dóma fyrir eiturlyfjasmygl til landsins.
Hægt er að lifa þægilegu lífi í Kólumbíu fyrir lítið fé. Hægt er að leigja húsnæði fyrir hlægilega lágar upphæðir en þá er líka um að ræða íbúðir í fátækrahverfunum. Því er um að gera að skoða staðsetninguna vel áður en íbúð er tekin á leigu. Sumir háskólanna bjóða upp á stúdentagarða.
Sendiráð
Engir beinir samningar eru milli Íslands og Kólumbíu um áritanir og annað slíkt. Þeim sem hugleiða flutning þangað er bent á að hafa samband við kólumbíska sendiráðið í Stokkhólmi eða við utanríkisráðuneytið á Íslandi.