Marokkó

Fólksfjöldi: 37 milljónir

Tungumál: Arabíska, tamazigh og franska

Gjaldmiðill: marokkóskt dírham

Höfuðborg: Rabat

Country Flag

Marokkó er konungsríki á vesturhluta Norður-Afríku með strandlengju meðfram Atlantshafi í vestri og Miðjarðarhafi í norðri. Landamæri landsins liggja að Vestur-Sahara í suðri og Alsír í austri. Landið var á árum áður verndarríki undir yfirráðum Frakklands og varð sjálfstætt árið 1956. Nafn Marokkó á arabísku er Maghreb sem þýðir „vesturríkið“ eða „vestrið“, en hugtakið er líka notað yfir vesturhluta Norður-Afríku. Marokkó er land andstæðna en þar má finna allt frá iðandi stórborgum til hefðbundinna þorpa og bæja með litríkum húsum, lifandi markaði með ýmsar gersemar, magnaðar strendur og falleg fjöll. Marokkósk menning er samsuða áhrifa úr ýmsum áttum en þar finnast áhrif íslam, kristni og gyðingdóms, ásamt menningu Berba. Marokkó er vinsæll áfangastaður ferðamanna sem hrífast af fallegum byggingum, náttúrulegum ströndum og lifandi menningu.

Að sækja um

Í Marokkó eru  12  opinberir háskólar og 3 háskólar í eigu einkaaðila. Margir háskólar í Marokkó kenna á frönsku en einhverjir eru með ensku sem aðaltungumál. Nauðsynlegt er að skoða vefi hvers þeirra um sig til að lesa sér til um námsframboð, umsóknarfrest, tungumál og hvaða gögn er nauðsynlegt að senda inn með umsókninni.

Til einkarekinna háskóla er sótt um nám beint til hvers skóla fyrir sig, en umsóknir í ríkisrekna skóla eru sendar til AMCI sem eru opinber samtök um alþjóðlega samvinnu í Marokkó. Vefurinn er á frönsku en umsóknareyðublöð má alla jafna finna undir Informations > Documentation.

Skólaárið er líkt því sem þekkist á Íslandi, hefst að hausti og lýkur að vori.

Námsgráður

Skólakerfið í Marokkó er byggt upp líkt og hið evrópska, með grunn-, meistara- og doktorsnámi.

Skólagjöld

Erlendir nemar geta vænst þess að borga á bilinu 1 milljón til 1,5 milljón á ári fyrir einkarekna skóla, en í sumum þeirra nær sú upphæð einnig yfir húsnæði.

Leit að námi

Listi yfir háskóla í Marokkó

Nám á ensku

Í opinberum háskólum í Marokkó er yfirleitt kennt á frönsku eða arabísku, en í einkareknum skólum er kennt á frönsku eða ensku.

Menntasjóður

Nauðsynlegt er að athuga hvort Menntasjóður láni til náms í Marokkó.

Að flytja til

Dvalarleyfi og sendiráð

Sótt er um námsleyfi í gegnum sendiráð Marokkó í Noregi sem sér um vegabréfsáritanir fyrir Íslendinga, en einhverjum tilvikum er mögulegt að sækja um námsleyfið eftir að komið er til landsins á ferðaáritun, en slíkt þarf að gerast innan ákveðins tíma. Best er að hafa samband við sendiráðið fyrir nánari upplýsingar.

Húsnæði

Margir skólanna eru með eigin stúdentagarða þar sem hægt er að sækja um herbergi þegar skólavist hefur verið staðfest. Leiga á húsnæði í Marokkó er tiltölulega ódýr en það fer þó eftir borgum og svæðum.

Tenglar