Panama

Fólksfjöldi: 4.3 milljónir

Tungumál: spænska (og enska)

Gjaldmiðill: Balbóa (PAB)

Höfuðborg: Panamaborg

Country Flag

Panama er lítið og afar mjótt land sem myndar mestan hluta þess eyðis sem tengir saman norður og suður Ameríku. Það á landamæri að Kosta Ríka í vestri og Kólumbíu í austri. Landið er einna þekktast fyrir skipaskurðinn þvert í gegnum eyðið, Panamaskurðinn og hefur hann verið mikill áhrifavaldur í sögu landsins. Þessi 77 kílómetra langi skipaskurður olli straumhvörfum í alþjóðasiglingum. Með tilkomu hans þurfti ekki lengur að sigla hina erfiðu leið suður fyrir Hornhöfða til að komast frá Atlantshafi til Kyrrahafs, eða öfugt. Mikil alþjóðleg starfsemi fer fram í landinu og þó spænska sé hið opinbera tungumál er þar víða töluð enska og talsvert er af háskólanámi í boði á ensku. Loftslag er heitt og rakt allt árið og því er hægt að rækta ótal tegundir plantna í landinu, m.a. kaffi, kakó og bananaplöntur.

Að sækja um

Opinbert háskólanám í Panama er ókeypis og því töluvert eftirsótt á alþjóðavísu. Þekktasti háskólinn er Universidad de Panamá, sem stofnaður var árið 1935. Um 90 háskólar eru starfræktir í landinu, margir þeirra útibú frá erlendum háskólum. Sjö háskólar í landinu hafa náð inn á alþjóðlega gæðalista. Engin ein leitarvél gefur yfirlit yfir alla þessa skóla en hér fyrir neðan eru tenglar á ýmsar vefsíður þar sem finna má krækjur á helstu háskólana. Skólaárinu í Panama er skipt niður í tvær annir. Önnur byrjar í mars og hin í desember. Stofnanir eru lokaðar í janúar og febrúar og það er tveggja vikna frí í júní/júlí.

 

Námsgráður

Háskólanám í Panama skiptist í tvö stig; grunnnám (undergraduate) og framhaldsnám (graduate). Bakkalár prófið er algengast að loknu grunnnámi sem tekur 4 ár. Meistaranám tekur að jafnaði 1 ár. Einnig er margs konar tækninám í boði.

Skólagjöld

Nám í opinberum háskólum er ókeypis en einkaskólar innheimta mishá skólagjöld. Hæst eru þau í útibúum frá bandarískum háskólum en eru þó lægri þar en í skólunum sjálfum í heimalandinu. Í hagnýtum upplýsingum hér að neðan má finna lista yfir nokkra háskóla þar sem skólagjöldum eru gerð skil.

Nám á ensku

Bæði bandarískir og breskir háskólar eru með útibú í Panama og bjóða þar upp á nám bæði á spænsku og ensku. Nauðsynlegt er að skoða hvað er í boði í hverjum þeirra fyrir sig. Almennt er grunnnám kennt á spænsku en nokkuð framboð á námsleiðum á ensku á meistarastigi.

Menntasjóður

Nauðsynlegt er að hafa samband við Menntasjóð til að tryggja að  fyrirhugað nám sé lánshæft.

Að flytja til

Húsnæði

Sumir háskólanna eru með stúdentagarða en það er langt í frá reglan. Þetta virðist hafa skapað afar góðan markað fyrir leigumarkaðinn og þegar slegið er inn á leitarvélar residencia estudiante Panamá, koma upp ótal möguleikar. Leiga virðist talsvert há, finna má herbergi með aðgangi að baði á um 50 þúsund krónur á mánuði og pínulitlar íbúðir fyrir um 100.000 krónur. Panamaborg er afar þéttbýl og því mikil eftirspurn eftir húsnæði sem skýrir þetta háa verð. Á móti kemur að matur og aðrar daglegar nauðsynjar eru afar ódýrar.

Sendiráð

Sendiráð Íslands við Panama er í Ottawa og sendiráð Panama við Ísland er í London.

Dvalarleyfi

Nauðsynlegt er að sækja um áritun sem nemandi í Panama. Aðeins þeir sem eru í fullu námi sem viðurkennt er af þarlendum menntayfirvöldum geta sótt um hana og er það gert á innflytjendaskrifstofunni í Panamaborg. Gott er að gera þetta strax í upphafi dvalarinnar. Framvísa þarf staðfestingu á skólavist, kvittun fyrir námsgjöldum ef um þau er að ræða, upplýsingum um hversu langt námið er og til hvaða gráðu það leiðir, sönnun þess að námsmaðurinn geti séð fyrir sér meðan á dvöl stendur (frá banka eða lánasjóði) og, ef um fjarhagslegan bakhjarl er að ræða í Panama, einhver skjöl sem sanna slíkt.

Tenglar