Síle

Fólksfjöldi: Um 19 milljónir

Tungumál: Spænska

Gjaldmiðill: Pesi

Höfuðborg: Santíagó

Country Flag

Lýðveldið Síle (Chile) er land í Suður-Ameríku á langri ræmu milli Andesfjalla og Kyrrahafsins. Í norðri liggur landið að Perú, Bólivíu í norðaustri, Argentínu í austri og Drakesundi í suðurhlutanum. Kyrrahafið er einu landamæri landsins í vestri, þar sem að strandlengjan er yfir 6,435 kílómetrar á lengd. Yfirráðasvæði Chile nær út á Kyrrahafið og tekur til Juan Fernández-eyja, Desventuradas-eyja, Sala y Gómez eyja og Páskaeyjar, en sú síðastnefnda er í Pólýnesíu. Síle gerir tilkall til 1.250.000 km² af Suðurskautslandinu.

Að sækja um

Æðra nám í Síle fer fram í þrenns konar skólum:

  • Háskólum (Universidades). Þeir skiptast gróflega í „hefðbundna“ háskóla, stofnaðir fyrir árið 1981, sem bæði eru reknir af opinberum aðilum og einkastofnunum og svo einkaskólar sem stofnaðir hafa verið síðar og bjóða upp á nýtískulegri kennsluaðferðir.
  • Háskólum sem bjóða upp á nám sem leiðir til ýmissa starfsréttinda.
  • Tækniskólum (Centros de Formación Técnica, CFT). Þetta eru allt einkaskólar sem bjóða upp á margs konar tæknimenntun.

16 opinberir háskólar eru starfræktir í landinu, 42 á vegum einkaaðila. Skólaárið skiptist í tvær annir; frá lokum febrúar og fram í byrjun júlí og frá lokum júlí fram í desemberbyrjun.

Háskólanám í Síle er talið mjög gott og fimm af háskólum landsins eru á QS World University Rankings gæðalistanum yfir háskóla.

Bestir eru taldir:

  • La Pontificia Universidad Católica de Chile sem býður nám í 18 deildum á fjórum stöðum í landinu. Lögð er áhersla á að nemendur hafi sem fjölbreyttastan bakgrunn og mikil samvinna er við erlenda háskóla.
  • La Universidad de Chile sem er elsti háskóli landsins og sá sem nýtur mestrar virðingar. Lögð er áhersla á skapandi nám og háskólinn tekur þátt í alþjóðastarfi í leit að lausnum á ýmsum vandamálum heimsins.

Flestir erlendu nemendanna í Síle eru skiptinemar í eina eða tvær annir.

Sótt er um í gegnum umsóknarkerfið PSU (Prueba de Selección Universitaria). Umsækjendur þurfa að taka tvenns konar próf, annað í stærðfræði og hitt í tungumálum. Í sumum tilfellum þarf einnig að taka próf í sagnfræði og/eða náttúruvísindum. Þá er stundum farið fram á einhvers konar viðbótarpróf eða viðtal.

Allt háskólanám í Síle fer fram á spænsku og bjóða flestir skólanna bjóða upp á undirbúningsnám í málinu.

Námsgráður

Háskólanám skiptist í Licenciatura (svipað og bakkalárnám hér) sem tekur 4 ár, meistaranám og doktorsnám.

Skólagjöld

Skólagjöld eru misjöfn eftir deildum og skólum en algengt er að borga um það bil 650.000 krónur á önn fyrir nám í opinberum háskólum.

Menntasjóður

Nauðsynlegt er að skoða vel hvort  Menntasjóður lánar til náms í Síle. Ef skólinn er ekki á lista sjóðsins yfir viðurkennda háskóla, er gott að hafa samband beint við starfsfólk hans.

Að flytja til

Húsnæði:

Langflestir háskólanna í Síle eru með stúdentagarða en einnig er mikið úrval leiguíbúða á markaðinum. Þegar slegið er inn „residencia estudiante Chile” á leitarstrengi, koma upp nöfn margra leigumiðlanna, sem yfirleitt sérhæfa sig í einni ákveðinni borg.

Áritanir:

Nemendur verða að sækja um vegabréfsáritun í sendiráði Síle í Osló a.m.k. mánuði áður en námið hefst. Framvísa verður vegabréfi sem gildir a.m.k. hálfu ári lengur en fyrirhuguð dvöl, sönnun þess að nemandinn ráði fjárhagslega við námið (frá Menntasjóði eða banka) og afrit af farmiða heim að námi loknu. Einnig skal framvísa staðfestingu skólans á námsvist, sakavottorði og heilsufarsvottorði. Námsmannaáritun veitir ekki atvinnuleyfi í Síle.

Sendiráð:

Krækja á sendiráð Síle í Osló og á utanríkisráðuneytið sem annast sendiherrastörfin fyrir Íslands hönd.

Tenglar