Viðtal við Sendiherra Þýskalands – DAAD styrkir í Þýskalandi

Nám í Þýskalandi – Spennandi tækifæri fyrir íslenska námsmenn

Viðtal við þýska sendiherrann á Íslandi, Herbert Beck og DAAD sendikennara við Háskóla Íslands Aune Stolz.

Á köldum vordegi heimsótti ég þýska sendiráðið í Reykjavík til að kynna mér betur þau tækifæri sem eru í boði fyrir íslenska námsmenn við þá nærri 400 háskóla sem hægt er að velja á milli í Þýskalandi. Ég var heppin að sendiherrann og sendikennarinn höfðu gefið sér tíma til að svara spurningum mínum.

Sendiherrann hefur starfað á Íslandi frá haustinu 2015 og Aune kom til landsins haustið 2017. Ég bað þau að segja mér aðeins frá uppvexti sínum og hvar þau höfðu sjálf stundað nám. Herbert Beck, sagði að hann hefði alist upp í suður Þýskalandi, á Stuttgart svæðinu, sem er þekkt ekki aðeins fyrir háskóla sína heldur einnig alþjóðleg fyrirtæki eins og Mercedes-Benz, Bosch og mörg fleiri. Hann stundaði grunnháskólanám sitt í Zurich í Sviss og stundaði framhaldsháskólanám sitt í London. Honum fannst það mjög hvetjandi og áhugavert að stunda nám erlendis. Hann sagði:,, Það er alltaf gott að kynnast nýrri menningu. Annað tungumál getur verið krefjandi. En þú lærir jafn mikið um sjálfan þig og nýju menninguna sem þú kynnist”.

Aune Stolz ólst upp í litlum bæ sem nefnist Bingen sem stendur við ána Rín. Hún sagði okkur frá svæðinu sem hún ólst upp í: ,, Við eigum ekki stórfyrirtæki þar en það er mikið um vínrækt og og við njótum þess að drekka góð vín”. Hún fékk einnig tækifæri til að læra erlendis og kunni mjög vel við þá reynslu og eftir að hafa stundað nám í nágranna borginni Mainz, stundaði hún nám í Helsinki í Finnlandi í eitt ár.
Ég bað þau að segja mér afhverju íslenskir námsmenn sem hefðu hug á að stunda nám erlendis ættu að skoða Þýskaland sem valkost?

Aune var fljót að benda á þá staðreynd að þú getur lært næstum hvað sem er í Þýskalandi. Það hefur upp á mikið að bjóða varðandi hágæða menntun og hefur marga gæða háskóla, sérstaklega í verkfræði. Það er mikið menningar- og félagslíf tengt skólunum. Borgir eru oft skilgreindar út frá háskólunum sem eru staðsettir þar og sérstaklega minni borgirnir eru mótaðar af þeim.

Sendiherrann var sammála Aune og bætti við nokkrum mikilvægum puntkum. Hann talaði um að hér áður fyrr hefðu fjölmargir Íslendingar, stundað nám í Þýskalandi og lært t.d. verkfræði, læknisfræði, sagnfræði og náttúruvísindi. Hann nefndi að það gæti verið vel þess virði fyrir unga námsmenn í dag að tala við þessa aðila og heyra um reynslu þeirra. Hann sagði: ,,Það sem Þýskaland er frægt fyrir og útskýrir alþjóðlega viðurkennda velgengni í verkfræði og hagnýtum vísindum er hin kerfisbundna aðferð við að svara vísindalegum spurningum. Þú getur lært að rannsaka og vísindalega rannsaka viðfangsefni þitt af nákvæmni og þar með skilið uppbyggingu og ferli. Það er í raun mjög lærdómsríkt að læra hvernig aðrir nálgast vísindalegar spurningar og finna svör við þeim.”

Aune bætti við að það er mikilvægt að nefna að menntakerfið á háskólastigi er að mestu leyti gjaldfrjálst fyrir heimamenn og alþjóðlega nemendur. Almennt eru ekki skólagjöld, það hefur reyndar breyst í einhverjum sambandsríkjum þar sem mjög lág skólagjöld eru innheimt. Hún mælti með að námsmenn ættu alltaf að kynna sér málin vel áður en lengra væri haldið.

Við spurðum næst hvort að flestar námslínur væru á þýsku eða hvort að hægt væri að stunda nám á ensku í Þýskalandi?

Aune svaraði því til að sífellt væri aukning á fjölda námsbrauta á ensku, það er því ekki nauðsynlegt að tala þýsku. Hún benti um leið á að ef þú ætlar að búa í Þýskalandi ættir þú að geta tekist á við daglegt líf og geta tjáð þig á tungumálinu sem væri talað í landinu. Hún sagði : ,,Ef þú vilt vera hluti af einhverju þá finnst mér að þú ættir að reyna læra tungumálið. Ég tel að það sé einnig mikilvægt fyrir mig og Hr. Beck að læra íslensku”. Í svari sínu við spurningunni sagði hann að ef þú talaðir við Íslendinga sem hefðu lært í Þýskalandi fyrir 40-50 árum síðan, þá töluðu þau ennþá framúrskarandi góða þýska. Hann bar þýsku saman við önnur tungumál og sagði að það ætti ekki að vera erfitt fyrir Íslendinga að læra hana, þar sem málfræðin er svipuð í báðum tungumálum. Hann bætti við: ,, Þeir hafa góðan grunn sem hafa lært tungumálið í Háskóla Íslands, ef þeir hafa ekki þegar lært það á fyrri skólastigum. Ég myndi færa fyrir því rök að Íslendingar hafi góðan grunn til að læra tungumálið þegar komið er til Þýskalands”.

Ég bað þau næst að segja mér frá DAAD styrkjunum

Aune svaraði spurningunni með því að útskýra að styrkirnir eru í boði, fyrir masters- og doktorsnema og einnig til að stunda rannsóknir. Styrkurinn innifelur að námsmaðurinn sem hann hlýtur fær styrk til framfærslu, greiðslu ferðakostnaðar og tryggingar. Hún útskýrði það ennfremur að ef þú t.d. vilt taka mastersgráðu í Þýskalandi, þá ættir þú að byrja á því að kynna þér hvaða nám er í boði og hvað þú hefur áhuga á. Og ef þú finnur eitthvað sem þér líkar, þá getur þú sótt um styrk. Hún sagði að þetta væri frekar einfalt ferli. Tímabilið sem styrkurinn endist fer eftir því hvað þú vilt gera, ef þú t.d. ætlar að stunda rannsóknir í eitt ár, sækir þú um eitt ár. Ef þú vilt taka mastersgráðu sem tekur 2 ár getur þú sótt um allt tímabilið.
Aðspurð hvort að styrkirnir væru sérstaklega fyrir Íslendinga eða alþjóððlega stúdenta almennt, svaraði hún: ,,Íslensku nemendurnir eru að keppa við aðra þegar þeir sækja um styrkina. Hins vegar viljum við gjarnan fá Íslendinga til Þýskalands, svo að þeirra umsóknir gætu verið skoðaðar sérstaklega”.
Herbert Beck: ,, Það er vert að bæta við að DAAD (The German Academic Exchange Service) er best fjármagnaður af slíkum sjóðum í heiminum”. Hann útskýrði ennfremur að það væru margar stofnanir sem styddu við hágæða vísindalegar rannsóknir í Þýskalandi, t.d. þýski vísindasjóðurinn (DFG), Helmholz-Sambandið, Fraunhofer og Max-Planck samtökin sem byðu upp á mörg tæifæri fyrir hæfileikaríka námsmenn og vísindamenn. ,,Þegar þú hefur öðlast inngöngu í DAAD kerfið getur þú einnig notið þess seinna. Þau skipuleggja fundi og samkomur eldri styrkþega (alumni) ásamt því að bjóða upp á yfirgripsmikið upplýsingakerfi. Þar getur þú séð hvað er í boði af tækifærum á öðrum sviðum. Jafnvel þótt að þú snúir aftur til Íslands, þá býður DAAD fjölþjóðlegt netverk sem býður upp á samvinnu sem nær langt umfram háskólanám”.

Að lokum spurðum við þau um reynslu þeirra af Íslandi og hvað fælist í störfum þeirra hér á landi.
Aune sagði okkur frá reynslu sinni á Íslandi og að henni líkaði dvölin hér mjög vel, fólkið væri vinalegt og hjálplegt. Hún sagðist elska landið og landsbyggðina. Hún sagði að starfið hennar væri tvíþætt annars vegar kennir hún þýsku við Háskóla Íslands, þar sem boðið er upp á bakkalár nám, nám á meistarastigi og einnig diploma nám fyrir aðila sem t.d. læra ferðamálafræði. Hinn þátturinn í starfinu felst i að auglýsa DAAD styrkina, upplýsa og veita ráðgjöf um þá. Hún er með skrifstofu í Veröld- Húsi Vigdísar Finnbogadóttur við Háskóla Íslands og ef einhver hefur áhuga á að fræðast meira um DAAD styrkina er þeim velkomið að senda henni tölvupóst, en netfangið hennar er gefið upp í lok viðtalsins.
Herbert Beck sagði að síðasta starf hans áður en að hann kom til Íslands hefði verið í S-Afríku, gjörólíku landi. Hann sagði um mismunin á milli landanna tveggja: ,,Ég verð að segja að mest sláandi mismunurinn hafi ekki verið veðurfarið, þótt að sjálfsögðu væri þar mikill munur. Heldur er það hvernig Íslendingar nýta mannauð sinn. Þar sem um fámenna þjóð er að ræða verðið þið að nota hæfileika allra og það er þjóðfélag án aðgreiningar og er mjög hvetjandi samfélag. Á Íslandi er mjög áhrifamikið að fylgjast með jafnt ungum börnum sem og fullorðnum gera hlutina með miklu sjálfsöryggi” .
Þegar við báðum hann að lýsa starfi sínu sagði hann að það að færa Ísland og Þýskaland nær hvort öðru á mörgum sviðum og að fá löndin til að vinna saman, væri líklega stysta skilgreiningin á sínu fjölbreytta starfi. ,,Nú nýlega heimsótti forsætisráðherra Íslands Katrín Jakobsdóttir Berlín og átti fund með Kanslara Þýskalands Angelu Merkel. Það er dæmi um stjórnmál á hæsta stigi. En að veita verðlaun til íslenskra námsmanna sem stóðu sig best í þýsku, fyrir nokkrum dögum er einnig mjög mikilvægt dæmi um sameiginlega hagsmuni Þýskalands og Íslands”.
Ég yfirgaf sendiráðið eftir mjög góðan og upplýsandi fund með Herbert Beck og Aune Stolz, fróðari um þau tækifæri sem bjóðast íslenskum námsmönnum .
Hjördís Jónsdóttir Framkvæmdastjóri SÍNE

Hér fyrir neðan má finna hagnýtar vefsíður fyrir þá sem vilja kynna sér betur nám í Þýskalandi.
Hafðu samband við DAAD sendikennarann: aune@hi.is
Gagnlegar vefsíður fyrir íslenska námsmenn sem hafa hug á að stunda nám í Þýskalandi:
www.study-in.de
Vefsíðan veitir þér grunnupplýsingar um allt sem þú þarft að vita ef þú vilt stunda nám í Þýskalandi.
www.daad.de/en
Vefsíða sem veitir upplýsingar um mismunandi DAAD-verkefni og styrki
www.ranking.zeit.de/che/en
Vefsíða sem sýnir hvernig þýskum háskólum er raðað eftir gæðum og gæti hjálpað við að velja rétta námið, borg og háskóla