Doktorsnám í markaðsfræði í Noregi

Þessi frásögn birtist fyrst í tímariti SÍNE, Sæmundi og er höfundur sögunnar Guðbjartur Karl Reynisson.

Það var um þrem árum áður en við fluttum út að ég og kærasta mín sátum á kaffihúsinu Babalú og ræddum hvort við ættum að prófa að búa erlendis. Hugmyndin var spennandi. Hvað myndum við gera í nýju landi? Hún er iðjuþjálfi, með heilbrigðismenntun fengi hún nokkuð örugglega vinnu á mörgum stöðum. Ég hafði fyrir mörgum árum klárað grunnnám í stjórnmálafræði en var að vinna sem sölumaður og langaði til að bæta við mig menntun því tengdu. Meistaranám í markaðsfræði heillaði.

En hvert myndum við fara? Ekki of langt í burtu. Kannski Bretlandi. Skandinavía var líka að heilla. Kæmumst örugglega fljótt inn í tungumálið. Nema kannski í Finnlandi. Hvað með veðrið? Er það ekki best í Danmörku? Mamma stundaði nám þar svo hún þekkir vel til. Getur pottþétt hjálpað ef til þarf. Hvað myndum við taka með? Ekki mikið sem við eigum af innbúi, en það þarf að koma því út. Vonandi höfum við tækifæri til að ferðast svolítið líka. Taka blátt strik sunnar í Evrópu þegar tækifæri gefst.

Þegar á hólminn var komið fórum við ekki neitt. Mér fannst meistaranámið við Háskólann í Reykjavík spennandi svo ákveðið var að leita ekki langt yfir skammt. Þetta var bara svo miklu skynsamlegra. Ég gat unnið að einhverju leyti með náminu og við komumst hjá kostnaðinum sem fylgdi því að flytja út. Ég man þó að þegar ég gekk inn í háskólann síðasta daginn þá fann ég fyrir meiri söknuði en létti. Á sama tíma var löngunin til að prófa að búa erlendis alls ekkert farin. Þvert á móti.

Eftir námið tók við atvinnuleit þar sem ekki hafði verið möguleiki að vinna 100% með náminu. Ég hafði verið í starfsnámi hjá auglýsingastofu og fannst það spennandi starfsvettvangur. Það sem hafði þó verið skemmtilegast var að gera markaðsrannsóknir. Rýna í gögn til að taka upplýstar ákvarðanir um næstu skref. Vega svo og meta hvernig hafi tekist til. Læra af reynslunni. Safna saman fleiri gögnum. Endurtaka. Hvar kæmist maður í góð gögn? Hmmm. Á þessum mánuðum sem ég var að leita mér að vinnu sótti ég um yfir hundrað störf. Fyrir hvert starf gátu verið hátt í hundrað umsækjendur. Þetta var strembið. Í kaffiboði var ég að barma mér yfir ástandinu þegar ég var spuður: ,,Hefurðu eitthvað skoðað atvinnuauglýsingar erlendis?“

Mikilvægt að taka ekki mark á efasemdaröddum

Við fyrsta tækifæri settist ég fyrir framan tölvuna. Ég fann fyrir efa þó. Hverjar eru líkurnar á að einhver úti í heimi þyrfti á nýútskrifuðum meistaranema að halda? Einhver sem mögulega talar ekki einu sinni tungumálið. Ég ýtti þessum hugsunum frá mér og opnaði heimasíðu EURES. Ég veit ekki hvaða leitarskilyrði ég setti inn en mjög fljótlega kom ég auga á auglýsingu sem mér fannst meira en lítið spennandi. Það var verið að auglýsa eftir umsóknum í launað doktorsnám við USN háskólann í Noregi.

Ég þyrfti þó að hafa hraðar hendur. Það var aðeins vika eftir af umsóknartímanum og ég þurfti að skrifa margra blaðsíðna greinagerð um hvernig ég myndi rannsaka „alternative food networks“ og „short food supply chains“. Hvað í ósköpunum var það? Ég ákvað þó að láta á þetta reyna. Nokkrir dagar fóru í að lesa fræðigreinar og restin af vikunnni í að skrifa upp mínar hugmyndir. Rétt áður en skilafresturinn rann út ýtti ég á „Send“. Fannst vera lítill möguleiki á að nokkuð myndi koma út úr þessu, en ég gerði mitt besta. Nokkru síðar fékk ég svar. Ég var boðaður í viðtal, ásamt fleirum, við fulltrúa skólans og mögulegan leiðbeinanda.

Viðtalið gekk ágætlega. Ég ákvað þó að halda væntingunum í hófi þar sem ég hafði áður verið boðaður í viðtöl án þess að nokkuð kæmi út úr þeim. Í þetta sinn langaði mig þó mikið til þess að verða fyrir valinu. Og viti menn. Ég fékk svar nokkrum dögum seinna. Staðan var mín ef ég vildi. Ég hefði smá tíma til að staðfesta og senda einhverja pappíra. Þennan dag gekk ég á móti kærustu minni þegar hún var á leið heim frá vinnu til að segja henni fréttirnar. Nú var staðan reyndar öðruvísi en þegar við höfðum rætt flutninga á Babalú. Í meistaranáminu höfðum við eignast eldri strákinn okkar. En það hafði þó ekki breytt því að okkur langaði báðum að prófa að búa erlendis. Ég hér var staðan orðin sú að í tölvupósthólfinu mínu var starfssamningur sem myndi opna fyrir okkur Noreg. Með honum myndum við geta sótt um húsnæði og norska kennitölu. Við vorum sammála um að þetta þyrfti að ræða frekar, en við vissum svo sem bæði hver niðurstaðan yrði.

Ævintýri framundan

Það er hægt að skipuleggja og undirbúa ótal margt þegar flytja á erlendis en þegar öllu er á botninn hvolft þá veltur ótrúlega margt á heppni. Það má segja að við höfum verið óheppin með að hafa flutt út í miðjum COVID faraldri en að öðru leyti gekk allt upp. Við fundum fínt leiguhúsnæði í bænum Horten sem háskólinn stendur við. Háskólinn er reyndar dreifður yfir átta bæi en sá hluti sem ég er í er kenndur við sýsluna Vestfold. Við vorum heppin með stað til að búa á og leikskóla fyrir strákinn. Einnig með nágranna sem tóku vel á móti okkur og ég með vinnufélaga, starfsaðstöðu og samnemendur. Þetta er allt eitthvað sem er lítið hægt að  stjórna og það er ekkert annað hægt að gera en að vona það besta. Er það ekki líka bara hluti af svona ævintýri?

Námið sem ég byrjaði í var doktorsnám í markaðsstjórnun. Í því mun ég skrifa þrjár fræðigreinar á fjórum árum um matarmarkaði sem nefnast REKO hringir. Þessir matarmarkaðir eru í Fésbókarhópum þar sem matarframleiðendur (að megninu til bændur) geta auglýst sínar vörur með póstum og viðskiptavinir panta í kommentum fyrir neðan. Svo hittast framleiðendur og viðskiptavinir á tveggja vikna fresti og afhending á vörum fer fram. Hver fésbókarhópur nær yfir tiltekið svæði í Noregi svo það eru yfir 100 hópar víðsvegar um landið. Hugmyndin er að auðvelda fólki að nálgast mat sem er framleiddur á siðlegan, gagnsæjan og lífrænan hátt milliliðalaust. Eins og staðan er núna þá sé ég um REKO hringinn í okkar heimabæ og það er áhugavert að fylgjast með hvað er til sölu og hve mikið er pantað hverju sinni.

Námið mitt átti upphaflega að vera fjögur ár en þar sem við eignuðumst okkar annað barn í ágúst 2021 þá lengdist námið um eina önn. Eða því sem nam fæðingarorlofinu sem ég tók. Venjulega eru doktorsnámin þrjú ár en með mínu kemur 25% starfsskylda sem þýðir samtals eitt auka ár þar sem ég starfa við kennslu. Sú reynsla mun reyndar koma sér vel þegar að því kemur að sækja um störf að námi loknu.

Ég get ekki ímyndað mér starf sem myndi passa mér betur. Það er öðruvísi taktur í doktorsnámi en öðru námi sem ég hef stundað því þar er tímastjórnun mun meira á mína ábyrgð. Þ.a.l er nokkuð undir manni sjálfum komið hvernig vinnutímanum er varið. En á móti kemur þá er auðvelt að efast um hvort verið sé að haga tíma á réttan hátt. Þá er gott að setja upp gott skipulag. Hvenær skal vinna og hvenær er frítími? Svo er gott að nálgast þetta af smá kæruleysi svona sem mótvægi við alla þessa stressandi skilafresti. Sennilega er galdurinn að finna jafnvægi í tilverunni sem raunhæft er að una við þann tíma sem doktorsnámið tekur. Þetta á að vera krefjandi, og það er það, en þetta þarf líka að vera skemmtilegt. Þá munar miklu að námsefnið heilli. Þá verður lesturinn, skrifin og kennslan auðveldari.

Fólkið hér við skólann hefur tekið alveg einstaklega vel á móti mér. Því miður fór námið mitt fyrsta árið að miklu leyti fram í gegnum tölvu vegna COVID, sem gerði það að verkum að við fyrsta árs nemarnir náðum ekki að kynnast eins vel og vaninn er. Þó þekkjumst við öll í dag og tölum saman þegar við hittumst í skólanum eða á ráðstefnum og fyrirlestrum. Hér eru doktorsnemarnir frá mjög mörgum löndum og sem dæmi þá eru nemarnir sem byrjuðu á sama tíma og ég frá Nepal, Víetnam, Íran og Noregi.

Félagslífið og hagsmunabarátta stúdenta

Það er í raun undir hverjum og einum komið hve mikið félagslíf fylgir náminu. Það er þó mikilvægt fyrir þá sem flytja einir í nám erlendis að einangra sig ekki um of því það er mikilvægt að geta átt í samskiptum við einhverja sem er í svipuðum sporum. Sjálfur er ég kominn með fjölskyldu svo ég hef minni tíma utan vinnu fyrir félagslíf en sumir samnemendur mínir. Í staðinn er ég á skrifstofunni á virkum dögum þar sem ég ræði við samstarfsfélaga og samnemendur,  og hef þannig eignast góða vini. Við komumst líka að því snemma að í götunni okkar búa fjölskyldur með börn á svipuðum aldri og okkar.

Í náminu hef ég einnig verið hluti af hópi nemenda sem stofnuðu hagsmunafélag doktorsnema hér við skólann. Það kom beiðni frá skólanum til allra doktorsnema um að þeir sem hefðu áhuga á að stofna slíkt félag gætu haft samband. Ég hafði verið markaðsstjóri hjá Landssamtökum íslenskra stúdenta áður en ég flutti út og mér hafði fundist það mjög skemmtilegt. Ég var því alveg ákveðinn í að halda áfram einhverskonar slíku starfi þegar ég væri kominn á gott ról í Noregi. Svo þegar þetta tækifæri sýndi sig þá lýsti ég strax yfir áhuga á taka þátt. Nú er ég markaðsstjóri þessa nýju samtaka sem kallast USN SPO. Við erum sex sem erum í stjórn, hvert frá sínu landi, erum formlega búin að stofna félagið og nú er aðalvinnnan að kynna það fyrir fólki innan skólans og að fá að koma að ákvarðanatökum er varða nemendur.

Mikilvægt að njóta

Heilt yfir hefur námið og flutningurinn til Noregs verið ánægjulegur. Stundum sakna ég þess að hafa ekki stuðningsnetið sem við höfðum á Íslandi, sérstaklega eftir þennan vetur þar sem mikið hefur verið um umgangspestir og veturinn óvenju erfiður. Á móti kemur þá lifum við í mun hægari takti heldur en við hefðum verið á Íslandi. Við njótum þess að vera saman og það er margt sem við eigum eftir að sjá og upplifa. Við höfum ferðast með tjaldvagn um Danmörku og Svíþjóð og eitthvað um Noreg og við hlökkum mikið til þess að gera það aftur. Hvort við flytjum aftur til Íslands eftir að ég klára mitt nám er óráðið en við erum sannfærð um að það hafi verið rétt ákvörðun hjá okkur að flytja út. Við munum búa vel að reynslunni sem það skapar okkur að þurfa að standa á eigin fótum, kynnast nýju fólki og læra nýtt tungumál. Ég get óhikað mælt með því.

Young man with glasses looking into the camera