Grunnám í hnattrænum sjálfbærnivísindum í Utrecht, Hollandi
Þessi frásögn birtist fyrst í tímariti SÍNE, Sæmundi og er höfundur sögunnar Finnur Ricart Andrason.
Þegar ég ákvað að sækja um háskólanám í Hollandi var ég sautján ára og við það að ljúka við framhaldsskólanám í Genf í Sviss þar sem ég bjó með fjölskyldunni minni á þeim tíma. Þetta hefði mörgum jafnöldrum mínum á Íslandi líklega fundist skrýtin ákvörðun þar sem flest þeirra áttu a.m.k. eitt ár eftir í framhaldsskóla á þessum tímapunkti, en fyrir mér var ekkert sjálfsagðara. Flestir vinir mínir í Alþjóðaskólanum í Genf voru líka að sækja um nám um allan heim og var það í rauninni reglan frekar en undantekningin að fara í nám erlendis. Auðvitað skoðaði ég nám á Íslandi líka en mér fannst það aldrei jafn spennandi og að fara í nám erlendis.
En, af hverju Holland?
Ég hef brennandi áhuga á umhverfis- og loftslagsmálum og byrjaði þessi áhugi tæpum tveimur árum áður en ég útskrifaðist úr framhaldsskóla. Þegar kom að því að velja grunnnám var ég staðráðinn í að læra eitthvað tengt umhverfismálum. Til að byrja með skoðaði ég nær eingöngu nám í Bretlandi, líklega vegna þess að flestir vinir mínir voru líka að skoða nám þar, en svo benti námsráðgjafinn minn mér á að ég ætti nú kannski líka að skoða hvort það væri eitthvað spennandi nám í Hollandi sem ég gæti hugsað mér að sækja um. Í fyrstu fannst mér þetta óþarfa flækjustig þar sem ég var frekar viss um að mig langaði til Bretlands, en svo þegar ég fór að skoða hvað væri í boði fann ég eina námsbraut sem mér fannst líta út fyrir að vera spennandi.
Samt sem áður sótt ég um nám í fjórum háskólum í Bretlandi og einungis einum í Hollandi. Á endanum náði ég ekki að gera það upp við sjálfan mig hvort mig langaði til Bretlands eða til Hollands fyrr en daginn áður en fresturinn rann út til að staðfesta val á náminu í Hollandi. Þá hafði ég rætt þetta fram og til baka við mömmu og pabba og ákvað ég á endanum að fara til Hollands. Þetta var ekki auðvelt val og sýnir fram á að það getur verið flókið að taka ákvörðun um hvað og hvar mann langar að læra.
Tveir þættir höfðu mest áhrif á ákvörðunina á endanum. Í fyrsta lagi þá fann ég, eftir að hafa lesið námsskrárnar fram og til baka, að námið í Utrecht væri nær því sem ég hefði áhuga á og því sem mig langaði að læra í samanburði við það sem væri kennt í bresku háskólunum. Mér fannst ég líklegri til að læra um fjölbreyttari vinkla á sjálfbærni í Utrecht og öðlast hæfileika sem myndu nýtast mér betur í því að ná markmiðunum mínum. Í öðru lagi hallaðist ég að því að mér myndi líka betur við hollenska samfélagið út frá því sem ég hefði upplifað og lesið mér til um. Mér fannst að hollensk gildi ættu betur við mig en þau bresku og svo togaði hjólamenningin auðvitað líka í mig.
Fallegt land - beinskeytt fólk
Ég er ótrúlega ánægður með þá ákvörðun mína um að fara í nám í Hollandi því ég elska að búa í Utrecht. Þetta er mjög falleg borg með skemmtilegum gömlum miðbæ, klassískum hollenskum síkjum og stærstu hjólageymslu í heiminum. Svo er þetta líka bara gott samfélag og stutt að fara til Íslands.
Að mörgu leyti er hollenskt samfélag svipað íslensku samfélagi en það er tvennt sem ég hef tekið sérstaklega eftir sem er svona helsti menningarmunurinn. Í fyrsta lagi þá kemst maður fljótt að því að Hollendingar eru mjög beinskeyttir. Þau eru flest ekkert hrædd við að tjá sína skoðun og segja þér nákvæmlega hvað þeim finnst, og þau gera þetta mörg ósjálfrátt. Það tekur suma erlenda nema smá stund að venjast þessu en mér finnst þetta frábært, auðveldar og einfaldar samskipti í flestum tilfellum ef maður er ekkert að kippa sér upp við að fá smá gagnrýni á sig. Hinn menningarmunurinn er að Hollendingar plana margir ótrúlega langt fram í tímann. Hér erum við að tala um að fólk sé nánast fullbókað öll kvöld og allar helgar fjórar til sex vikur fram í tímann. Auðvitað eru ekki öll sem gera þetta en það gæti þurft að venjast þessu að einhverju leyti ef maður er að koma frá Íslandi þar sem ‘þetta reddast’ menningin er mjög ríkjandi.
Skemmtilegt og fjölbreytt nám
Í Utrecht eru hátt í þrjátíu stofnanir sem mætti flokka sem eins konar háskóla og eru því hátt í 70.000 nemar í borginni, en Utrecht University, sem ég stunda nám við, er sá stærsti. Hann er á þremur stöðum í borginni og námið mitt fer fram á svæði sem er kallað Science Park sem er örstuttan spöl út úr kjarna borgarinnar. Þetta er mjög skemmtilegur og líflegur campus með fjölbreyttum byggingum, risastóru bókasafni, slatta af matsölustöðum, foodtrucks og litlum búðum, og svo er mjög gott aðgengi með almenningssamgöngum (og auðvitað hjólandi).
Námið sjálft sem heitir Hnattræn sjálfbærnivísindi (e. Global Sustainability Science) er mjög skemmtilegt og þverfaglegt og er mikið lagt upp úr því að nemendur fái mikið val. Ég hef til dæmis valið mér braut sem heitir Governance and Societal Transformations en hef náð að blanda námskeiðum úr öðrum brautum sem einblína meira á náttúruvísindi og svo er líka hægt að velja námskeið úr allt öðrum deildum. Ég tók til dæmis eitt mjög random námskeið sem var um nýlendustefnu Vesturlanda í Miðausturlöndum milli 1789 til 1945.
Öll námskeiðin innan minnar námsbrautar auk fjölmargra námskeiða af öðrum námsbrautum eru á ensku sem er mjög þægilegt. Svo eru skólagjöldin tiltölulega lág sem er líka mikill kostur.
Að halda í tengslin við Ísland
Meðfram námi bralla ég ýmislegt og eru sumar vikur þannig að ég eyði minni tíma í háskóaltengd verkefni í samanburði við önnur verkefni utan háskólans. Ég sit í stjórn Ungra umhverfissinna sem forseti (var áður loftslagsfulltrúi), vinn alls konar miðlunarvinnu fyrir Landgræðsluna í hlutastarfi og æfi handbolta. Þessi rúmu tvö ár sem ég hef verið virkur í Ungum umhverfissinnum hefur virkilega hjálpað mér að byggja upp og viðhalda tengslum við fólk á Íslandi og það sem er að gerast í samfélaginu og eins með hlutastarfið hjá Landgræðslunni sem er mjög þægilegt að geta unnið alfarið í fjarvinnu.
Öll þessi mismunandi verkefni gera það vissulega að verkum að vinnuálagið er mikið og hef ég þurft að læra hægt og rólega hvar mín mörk liggja og hvernig mér finnst best að skipuleggja tímann minn. Ég hef komist að því að mér hentar best að vinna 9-17 vinnudaga fimm daga í viku og reyni svo að slappa af og sinna áhugamálunum þess utan. Svo nota ég Google Calendar mikið til að koma í veg fyrir árekstra og hafa gott yfirlit yfir það sem ég þarf að gera. Þetta fyrirkomulag er ekki fullkomið og kemur það oft fyrir að ég vinn lengur en til klukkan fimm á kvöldin og vinn jafnvel um helgar líka, en ég mæli með því að setja sér skýr mörk og reyna að virða þau eins og hægt er til að halda í jafnvægið.
Gefandi og þroskandi lífsreynsla
Þessi rétt tæpu þrjú ár í Utrecht í Hollandi hafa verið ótrúlega gefandi og ég er mjög þakklátur fyrir þessa reynslu. Upplifunin hefur þroskað mig á svo marga vegu og af svo mörgum ástæðum. Að búa erlendis og kynnast nýjum menningarheimum og sjónarmiðum er auðvitað það klassíska sem fólk talar alltaf um - og það er alveg rétt. En svo eru það minni hlutir sem þroska mann kannski samt jafn mikið eins og það að búa einn. Mér fannst það ekkert rosalega stórt skref og ég hugsaði frekar lítið út í það, en ég finn það núna að það hefur gefið mér ótrúlega margt og ég hef lært mikið af því og orðið sjálfstæðari. Svo er líka mjög gaman að taka virkan þátt í því sem er að gerast í samfélaginu á Íslandi en að vera samt búsettur erlendis, það hefur gefið mér öðruvísi sýn á hlutina sem eru að gerast á Íslandi; mér finnst ég geta horft á hlutina að utan sem getur hjálpað að setja hlutina í stærra samhengi.
Ég mæli mikið með þessari lífsreynslu fyrir ykkur sem eruð að íhuga að fara í háskólanám. Ég mæli líka með því að kynna ykkur húsnæðismálin vel áður en þið takið ákvörðun um að fara út, en ekki hafa of miklar áhyggjur. Þetta er fyrst og fremst skemmtilegt ævintýri og í flestum tilfellum bara hægt að taka ‘þetta reddast’ hugarfarið á þetta!
Ekki hika við að senda mér skilaboð ef þið viljið vita eitthvað meira eða fá fleiri tips um hvað sé gott að hafa í huga varðandi nám erlendis :)