Heiða Vigdís Sigfúsdóttir – Skiptinám til Buenos Aires

Heiða Vigdís Sigfúsdóttir, MA nemi í ritlist í Háskóla Íslands, hlaut Erasmus+ styrk til að stunda skiptinám í Buenos Aires, Argentínu. Hægt er að fylgjast með Heiðu á ferðabloggi sem hún heldur úti á meðan dvölinni stendur: https://heida92.blogspot.com/

„Einhvern tímann þegar það var vetur auglýsti Alþjóðadeild Háskóla Íslands Erasmus+ styrk fyrir skiptinám utan Evrópu, til Argentínu, og vegna einlægs áhuga míns á hinum Spænskumælandi menningarheimum (og sólinni) sótti ég um.  Og viti menn og konur! Núna er september að klárast og vorsólin skín á mig, hérna í Buenos Aires.

Það jafnast ekkert á við það að tína sér í stórborg í Rómönsku-Ameríku. Á hverju horni birtast ný stræti og torg sem leiða mig áfram á vit óvissunnar. Ævintýranna. Tóntegundirnar eru öðruvísi en á íslandi, tungumálið mýkra og borgartakturinn grófari. Dansinn dunar á götum úti og í dimmum sölum með tangótónlist, salsa, barchata eða hverjum þeim tónum sem mýkt geta liðamótin.

Saga landsins er lituð af bræðingi ólíkra menningarheima og útkoman nær óskiljanleg. En í skiptináminu mínu í Universidad del Salvador reyni ég að skilja, rýni í argentínskar bókmenntir, sviðslistir Buenos Aires og stjórnmálasögu landsins. Spænskan mín er komin með argentínskan hreim og ég held ég sé að verða ástfangin (af borginni sko).“