Meistaranám í heilbrigðisstjórnun-og stefnumótun í Kanada
Nám er besta fjárfestingin fyrir samfélagið og sama hvað þú gerir í lífinu muntu aldrei sjá eftir þessu.
Þessi reynslusaga birtist fyrst í tímariti SÍNE, Sæmundi og er höfundur sögunnar Elísabet Brynjarsdóttir.
Ég vissi alltaf að ég ætlaði í nám erlendis ef ég hefði tök á því. Ung fylgdist ég með móður minni hamast við lærdóm í framhaldsnámi sínu sem hún tók sem fjarnám heima, þar sem hún var með þrjú börn og fjölskyldu. Ég man að ég vildi svo fara með henni í útskriftina hennar þegar ég var lítil en það var ekki hægt. En þegar ég sá myndina af henni með hattinn og gráðuna vissi ég að þetta heillaði mig eitthvað. Ætli það hafi ekki verið skikkjan.
Mamma hvatti mig alltaf til þess að gefa mér pláss í lífinu og slá til að flytja erlendis. Ég hef ferðast víða, en aldrei til Kanada! Ég er mikið fyrir útivist og ævintýramennsku, að upplifa hluti, þannig ég hafði oft hugsað að ég vildi prófa að ferðast þangað. Ég varð líka smá heilluð af því að Kanada er í Norður-Ameríku en er samt framarlega í mannréttindum, þó þau séu ekki fullkomin. Eftir að ég starfaði hjá Rauða krossinum sem hjúkrunarfræðingur í gegnum heimsfaraldur ákvað ég að nú gæti ég ekki frestað þessu lengur og sló til að sækja um. Ein borg átti hjartað mitt – Vancouver í British Columbia. Ástæðan fyrir því var einföld: skaðaminnkun og hugmyndafræði um áfallamiðaða nálgun var framúrskarandi þar í gegnum faraldurinn og rannsóknir sem birtust frá hjúkrunarfræðingum um jaðarsetta hópa veitti mér, litla Íslendinginum, stuðning í gegnum aðstæður sem ég bjóst aldrei við að vera í. Eftir að borgin hafði verið valin, var bara einn skóli í boði og það var University of British Columbia – allt eða ekkert. Ég hafði vissulega verið að spara pening frá útskrift úr grunnnámi til þess að geta haldið á vit námsævintýra síðar, þannig það blundaði alltaf í mér. Umsóknarferlið var mjög langt og strangt, með tilheyrandi gögnum, skrifum og hoppum í gegnum hringi. Það tók mig rúmlega hálft ár að senda inn umsóknina. Eftir að mér var boðið pláss tók við annað hálft ár af undirbúningi. Ég þurfti meðal annars að sanna að ég ætti pening, sem var smá flókið þar sem hjúkrunarfræðingar eru kannski ekki þekktir fyrir ríkidæmi. En einhvern veginn hafðist þetta, þökk sé Menntasjóði námsmanna og mikilli undirbúningsvinnu af minni hálfu.
Öll Hjartans Mál Sameinuð í Eina Gráðu
University of British Columbia er staðsett í hinni gífurlega fallegu og skemmtilegu borg: Vancouver. Skólinn er vel þekktur á heimsvísu en námið sem ég valdi mér var nýlegt innan skólans. Leiðin mín heitir Master of Health Leadership and Policy: Clinical Education og er samblanda af kúrsum við Sauder School of Business og School of Nursing. Þessi þverfræðilega nálgun á stjórnun og stefnumótun heillaði mig upp úr skónum og ekki skemmdi fyrir að lagt væri áhersla á klíník og kennslu samhliða því! Öll mín hjartans mál sameinuð í eina gráðu. Þessi gráða hefur verið til í rúmlega 7 ár og því ekki margir útskriftarárgangar og ég er fyrsti Íslendingurinn til að ljúka henni að mér vitandi. Gráðan mín er hýst af heilbrigðisvísindasviði skólans en í árganginum mínum var hins vegar önnur námsleið sem kallast Master of Engineering Leadership og sat ég því alla viðskiptafræði tímana mína með verkfræðingum í bland við heilbrigðisvísinda nema sem var gífurlega lærdómsríkt. Skólinn er gamall með mjög mikið prófessorum starfandi sem koma frá mismunandi heimshornum. Til dæmis kenndi prófessor frá Harvard mér Organizational Leadership og annar prófessor frá Columbia háskólanum um Sustainability and Leadership.
Ég tala nú ekki um alla samnemendur mína sem voru um 200 talsins í árganginum. Þau komu alls staðar að og gífurlega margir menningarheimar sem sameinuðust í einn árgang. Ég er enn að melta allar reynslurnar mínar og sögurnar sem ég heyrði frá þeim.
Að Læra af Margbreytileikanum
Ég áttaði mig fljótt á því að það er flókin dýnamík að flytja til Kanada. Löng og ófögur saga landnema sem tóku land af frumbyggjum Kanada var mjög áberandi, þar sem Kanadabúar rembast nú við að gera upp fortíðina og lifa saman í sátt og samlyndi. Ég var því fljót að átta mig á því að ég væri gestur í landinu og ætti að bera mig sem slíkur. Þetta var áhugaverð þakklætispólitík en mestu virðinguna bar ég fyrir þeim frumbyggjum sem leyfðu mér að sækja viðburði og kynnast þeirra menningu í Kanada. Ég lagði mig alla fram við að læra um sögu landsins áður en ég fór út til þess að vera góður gestur í nýju landi.
Það var sömuleiðis mikill menningarmunur innan bekkjarins, þar sem ólíkir menningarheimar mættust. Ég var í stúdentafélaginu okkar og leiddi viðburðahald, sem og var í forsvari fyrir námsleiðina út á við. Ég lagði því kapp á að mæta á sem flesta viðburði en minnisstæðast eru líklegast mótmælin fyrir konur og fólk frá Íran sem haldin voru alla laugardaga. Ég mætti sem oftast með írönskum bekkjarsystrum mínum og hlustaði á sögurnar.
Það er gífurlega hollt fyrir alla að læra að setja sjálfan sig og Ísland í samhengi við heiminn og það sem er í gangi annars staðar. Ignorance is bliss og allt það, en við berum öll ábyrgð á einn eða annan hátt. Samstaða getur þýtt mikið þrátt fyrir að hún krefjist oft lítils af okkur sem hafa forréttindi. Auðmýktin að vera Íslendingur er klisja en átti við og ég nýtti árið í að taka sem minnst pláss í aðstæðum þar sem ég þurfti ekki að taka pláss og bara hlusta. Ætli það hafi ekki verið mesti lærdómurinn eftir allt saman, þrátt fyrir fína titilinn.
Meðmæli fyrir aðra eru einföld: fylgdu huganum og hjartanu og kýldu á þetta. Nám er besta fjárfestingin fyrir samfélagið og sama hvað þú gerir í lífinu muntu aldrei sjá eftir þessu. Ef þú hefur tök á og áhuga.