„Hvernig datt þér í hug að læra rússnesku?“ er sennilega sú spurning sem ég hef fengið oftast á síðustu árum. Af einhverjum ástæðum þykir fólki furðulegt að langa að kunna rússnesku, þrátt fyrir að rússneska sé það móðurmál sem flestir tala í Evrópu, en um það bil 144 milljónir manna hafa rússnesku að móðurmáli. Í heildina eru yfir 200 milljónir manna sem tala rússnesku, það hlýtur að koma sér vel að kunna slíkt tungumál?
Það voru þó ekki einhver hagkvæmnissjónarmið sem leiddu mig upp í Háskóla Íslands að læra rússnesku. Af einhverjum ástæðum hef ég alltaf haft áhuga á Rússlandi, rússneskri menningu og rússneskri sögu. Fyrir fáeinum árum eignaðist ég síðan nágranna sem töluðu rússnesku og eftir að hafa hlustað á samræður þeirra í nokkur skipti vissi ég að þetta tungumál hreinlega yrði ég að læra. Það var því algjör draumur þegar ég frétti, eftir tveggja ára nám í rússnesku, að nemendum á Íslandi stæði til boða styrkur til að sækja skóla í Rússlandi.
Ég ákvað að sækja um í sumarskóla og sótti um bæði skólastyrkinn og skólavistina á góðum tíma. Svo beið ég. Og ég beið. Það var reyndar búið að vara mig við, skilvirkni og gegnsæi er ekki eitthvað sem maður tengir við rússneska skriffinnskukerfið.
Fáeinum vikum fyrir brottför hafði ég enn ekki fengið svar frá neinum, hvorki varðandi styrkinn né skólavistina. Ég sendi því tölvupóst til þess að athuga stöðuna. Dagar og vikur liðu án þess að ég fengi svar. Aftur sendi ég tölvupóst og spurðist um leið fyrir hjá kennaranum mínum, hvort henni þætti þetta eðlilegt. Hún hló, „þú færð ábyggilega ekki svar fyrr en þú ert komin út!“. Hughreystandi. Þetta endaði með því að ég sendi þriðja tölvupóstinn þremur dögum fyrir brottför og fékk loksins svar frá skólanum: „Já, já. Komdu bara.“ Ég pakkaði því niður og fór.
Laugardagur 27. júní 2015 – Dagur 1
01:00 – Smá stress, samt minna en ég bjóst við.
08:00 – Elska flugvöllinn í Helsinki! Góð millilending.
15:00 – Fínt flug til Moskvu, stutt og laggott, að vísu smá seinkun á töskunum okkar vegna bilunar.
19:00 – Komin á heimavistina og herbergið er… hvernig á ég að orða þetta… Ekki frábært? Eða er ég svona mikil forréttindamanneskja? Kannski lítur þetta betur út á morgun, eftir smá svefn.
Sunnudagur 28. júní 2015 – Dagur 2
11:00 – Já nei, herbergið lítur ekki betur út í dagsljósinu. Talvert verr ef eitthvað er.
13:00 – Í búðinni kostar klósettpappír 1.000 rúblur á meðan 1 lítri af vodka kostar 100 rúblur! Ég fæ semsagt 10 vodkaflöskur fyrir hvern pakka af klósettpappír. Ótrúlegt.
20:15 – Lyfturnar eru ekkert grín hérna, eða eru þær kannski bara grín? Bara tvær lyftur fyrir allt húsið (15. hæðir, 20 herbergi á hverri hæð og 5 manns í hverju herbergi) og önnur lyftan er búin að vera biluð síðan í gær.
22:02 – Bara eitt pínupínupínulítið baðherbergi fyrir 5 stelpur í heilan mánuð, hvernig á það að ganga upp?
Þriðjudagur 30. júní – Dagur 4
15:10 – Fyrsti alvöru skóladagurinn okkar er búinn. Verð orðin ansi sleip eftir 4 vikur held ég.
20:05 – Við ætluðum að fara í ping-pong eftir kvöldmat (það eru borðtennisborð á neðstu hæðinni) en gátum ekki með nokkru móti gert okkur skiljanleg við konurnar í afgreiðslunni – hvernig segir maður borðtenniskúla á rússnesku?! Við ætlum að reyna aftur seinna…
21:00 – Fundum tvær lyftur í viðbót! Önnur þeirra tekur reyndar upp á því að flakka með mann upp og niður, frá 1. hæð og upp á þá 15., just for the hell of it. Er farin að taka stigana, það er miklu fljótlegra, þó að við séum uppi á 12. hæð.
Laugardagur 4. júlí – Dagur 8
11:30 – Rússland, þar sem ein ískúla kostar 300 rúblur en bækur kosta 100 rúblur!
17:00 – Fórum á Rauða Torgið og inn í Kremlin. Vaaaááááá. Geggjað. Meiriháttar.
21:07 – Var að drepa þriðja kakkalakkann inn á herberginu okkar. Lovely.
00:30 – Fórum fjögur saman á smá pöbbarölt. Fyrsti barinn sem við fórum á þykir frekar fínn og við þurftum að fara í gegnum málmleitarhlið áður en við fórum inn. Skilst að það sé bara normið hérna. Á hinum barnum var eingöngu hægt að kaupa 1 lítra af bjór – ekkert minna. Það var litið skringilega á okkur þegar við báðum um 1 lítra og fjögur glös…
Laugardagur 11. júlí – Dagur 15
13:00 – Ókei ég elska Rússa og garðana þeirra. Lystigarðana það er að segja. Fórum í garð sem myndi sennilega kallast Keisaraynjugarðurinn á íslensku? (Tsaritsino) og ég hefði getað eytt öllum deginum þarna. Það má segja ýmislegt um Rússa en þeir kunna svo sannarlega að búa til fallega garða.
18:30 – Fórum í verslunarmiðstöð í miðbæ Moskvu. Það voru málmleitarhlið við alla rúllustiga. Veit ekki hvort það lét mér líða betur eða verr…
Þriðjudagur 14. júlí – Dagur 18
08:00 – Já sæll, það var lokað fyrir ALLT vatn í dag. Við vissum að það yrði ekkert heitt vatn næstu tíu daga en vissum ekki að það yrði líka lokað fyrir það kalda!
09:00 – Note to self: Það er ekki hægt að sturta niður þegar það er ekkert vatn…
21:30 – Fórum í frábæran garð í dag. Það er samt eiginlega ekki hægt að kalla þetta garð, þurfum að finna annað íslenskt orð fyrir þetta fyrirbæri. „Garðurinn“, VDNH (já hann heitir það), er stærri en Mónakó að flatarmáli og í honum er til dæmis gullsleginn gosbrunnur, risaeðlusafn, alvöru geimflaug, skriðdrekasafn, stöðuvatn, tívolí, ásamt mörgum ótrúlega fallegum byggingum. Uppáhalds staðurinn minn til þessa.
22:12 – Jess, kalda vatnið er komið aftur! Köld sturta here I come!
Mánudagur 27. júlí – Dagur 31
07:00 – Dagur 31 í Rússlandi! Eða í Moskvu öllu heldur. Rússarnir segja að hvorki Moskva né Pétursborg séu í raun rússneskar, Pétursborg er evrópsk og Moskva er bara Moskva!
10:00 – Tókst á undraverðan hátt að vera með minni farangur núna en ég var með þegar ég kom. Hagkvæmni.is
19:00 – Notuðum síðasta daginn vel. Kíktum á Moskvuháskóla í dag, MGU. Byggingin er virkilega falleg, eins og flest annað hérna. Held að mottó Rússa sé „go big or go home“. Kíktum einnig á Arbat-stræti og eina frægustu kirkjuna í Moskvu (Cathedral of Christ the Savior, eitthvað svoleiðis).
21:30 – Moskva kveður með stæl, búið að vera brjálað þrumuveður í allt kvöld, himininn er fjólublár og andrúmsloftið er bókstaflega rafmagnað. Heimferð í fyrramálið!