Skiptinám til Jórdaníu

Pálmi Þormóðsson skiptinemi í Jórdaníu

Þessi reynslusaga birtist upphaflega á vefsíðu Háskólans í Reykjavík þaðan sem Pálmi fór sem skiptinemi.

Klukkan tvö um nótt þann 19. janúar var Pálmi Þormóðsson að reyna að festa svefn. Það gekk frekar brösuglega. Hann var nýlentur og var staddur í Irbid í Jórdaníu, í kolniðamyrkri og frosti og í um 20 kílómetra fjarlægð frá sýrlensku landamærunum.

„Húsin í Jórdaníu halda ekki hita. Þetta virkar vel á sumrin þegar það er mjög heitt en ekki svo vel á veturna þar sem hitastigið fer oft niður fyrir frostmark,“ segir Pálmi. „Þegar ég var að fara að sofa fór ég bara í öll fötin! Ég var svo vakinn kl. 5 með bænakalli. Ég get alveg viðurkennt að á því augnabliki fann ég fyrir heimþrá. Svo bara hvarf hún.“

Langaði í skiptinám á sterum

Pálmi er nemi í tölvunarfræði með viðskiptafræði sem aukagrein. Hann langaði að takast á við áskorun og skráði sig í skiptinám í Jórdaníu, í Jordan University of Science and Technology. „Mig langaði í skiptinám á sterum ef svo má segja! Ég vissi að ég myndi seint geta dvalið á svona stað með alla þá aðstoð sem ég var með sem skiptinemi; styrki, úrræði og sjálfboðaliða frá staðnum til að hjálpa mér - þannig að ég vissi að þetta tækifæri var ómetanlegt. En ég viðurkenni fúslega að ég vissi lítið um þetta umhverfi sem ég var kominn í.“

Pálmi var búinn að fá að vita að bæði höfuðborg Jórdaníu Amman, og Irbid, sem var borgin sem hann dvaldi í meðan á náminu stóð, voru öruggir staðir og ástandið ekkert í líkingu við það sem ríkir í Sýrlandi, eða Ísrael og Palestínu sem einnig eru stutt frá.

Öðruvísi menning

Í Irbid búa um tvær milljónir manns. „Það er allt við hana framandi. Stór hluti hennar er bara tún og bæir sem tengjast saman og það er ekki byggt eftir neinu skipulagi. Einu megin við götuna er kannski nútímalegur veitingastaður en hinum megin fjárhirðar að smala af túni. Moskur eru á hverju horni og maður þarf að venjast bænaköllunum en þau eru hávær og berast úr öllum áttum.“

„Ég reyndi að kynnast staðnum eins vel og ég gat, sérstaklega fyrst, áður en það varð meira að gera í skólanum. Einn sjálfboðaliðanna hjá skiptinemasamtökunum fór með mig í gönguferð í lítinn bæ í nágrenninu. Þar fengum við leiðsögn bæjarstjórans um fjallshlíðar í kring en hann bar skammbyssu til að geta skotið villihunda. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að hundar væru ekki gæludýr í Jórdaníu.“

Pálmi og félagar fóru yfir landamærin til Palestínu og Ísraels. „Það var fróðlegt að heyra fólk frá Ísrael tala um lífið þar. Ég sá mikið af fullvopnuðum hermönnum í Irbid og Amman en þeir voru yfirleitt ekki með magasínin í byssunum, en í Ísrael voru þeir miklu fleiri og mun yngri og með hlaðin vopn.“

Samskipti kynjanna með öðrum hætti

En hvað með samskiptareglur í Jórdaníu? „Já, þær eru öðruvísi en hérna. Þegar tveir karlar heilsast mega þeir eiginlega kyssast, eða vera mjög innilegir. Ef karlmaður heilsar konu verður hún að eiga frumkvæðið að því hvernig hann hagar sér. Hún getur rétt fram höndina og þá heilsar maður henni með handabandi, ef ekki setja þær hönd á öxl. Það voru allir mjög gestrisnir, mér var oft boðið inn á heimili fólks, boðið í mat og gönguferðir.“ Pálmi var orðinn vanur nýjum samskiptareglum og fannst skrítið að koma aftur til Íslands í maí síðastliðinum en segist hafa lært ótrúlega mikið. Einnig mæli hann með að fara til Amman í skiptinám því það sé frjálslegara samfélag og fjölmennari borg. „Ég mun búa að þessari reynslu alla ævi og þá sérstaklega að hafa skorað á sjálfan mig, og lifað það af!“