Burðarþolsverkfræði í Edinborg, á Explorer styrk

Rakel Björt Helgadóttir lærir burðarþolsverkfræði í Heriot-Watt University í Edinborg, Skotlandi. Rakel Björt fékk styrk til náms úr Explorer sjóðnum.

Ég er að læra bruðarþolsverkfræði í Heriot-Watt University.  Ég valdi að sérhæfa mig í henni þar sem að mér fannst kúrsarnir sem tengdust burðarþoli skemmtilegastir í grunnnáminu mínu í umhverfis- og byggingarverkfræði. Ég heyrði fyrst af Explorer sjóðnum þegar ég var að skoða möguleikann á styrkjum til náms í Bretlandi.

Ég bý í Edinborg. Edinborg er skemmtileg borg sem ég mæli hiklaust með fyrir fólk á leið í nám. Borgin hefur ríka sögu og eitt af því skemmtilegast við borgina er hvað hún er hefur mikinn ævintýrabrag yfir sér, þá sérstaklega út af kastalanum í miðborginni. Hér er líka stutt í náttúruna eins og heima á Íslandi og margar fallegar gönguleiðir í boði. Auk þess er mikið um að vera í borginni sjálfri og finnst mér sérstaklega gaman að kíkja á uppistönd um helgar.

Hugmyndin um að taka Master í Bretlandi kviknaði á síðasta árinu mínu í grunnnáminu. Ég hef búið bæði í Danmörku og Þýskalandi þannig að mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Þá lá beinast við að skoða nám í Bretlandi þar sem skólarnir þar þykja margir hverjir mjög góðir. Ég hef ágætis reynslu á því að búa erlendis þannig að það kom mér ekki margt á óvart eftir að ég kom út. Það helsta var ef til vill hvað fólk er almennt hjálpsamt og kurteist hérna sem kom mér á óvart á jákvæðan hátt.

Mig langar til að ferðast aðeins um Bretland og Evrópu þegar ég klára námið en síðan langar mig að fá mér vinnu þar sem ég get nýtt þá þekkingu sem ég hef aflað mér í náminu og lært að beita henni.

Ég mæli annars með að fólk byrji snemma að huga að húsnæðismálum. Það er mjög erfitt að finna leiguhúsnæði í Edinborg á haustin.