Doktorsnám í efnisfræði við Oxford, á Explorer styrk
Viktor Ellingsson stundar doktorsnám í efnisfræði við Oxford háskóla. Viktor fékk styrk úr Explorer sjóðnum.
Námið sem ég er í heitir efnisfræði (e. Materials Science) og er doktorsnám. Efnisfræði er mjög vítt fræðisvið, en snýst í grófum dráttum um að beita, m.a., efnafræði til að hanna efni með betri eiginleika eða ný efni fyrir ákveðin verk. Ég er með BS gráðu í efnafræði frá HÍ og mig langar að nota þá gráðu til að hanna betri efnahvata, rafhlöður eða aðra slíka hluti sem gætu hagnast heiminum, og því var DPhil nám í efnisfræði tilvalið.
Ég bý í Oxford hjá Lincoln college. Oxford er, að mér finnst, mjög góður staður til að vera; ekki of stór né lítill, stutt í nátúru, mikið um útivist. Krútlegur bær með mikla sögu.
Mig hefur lengi dreymt um að stunda nám við Oxford háskóla, ég setti sjónir á Oxford þegar ég byrjaði í grunnnámi á Íslandi og hef stefnt hingað síðan þá. Eftir að ég kom út ákvað ég að byrja að stunda róður, eftir mikla sannfæringu frá Lincoln college bátafélaginu, sem er algjörlega einstök upplifun. Það að vakna klukkan 6 á morgnana, við alskonar veðurskilyrði, til að klifra upp í 8 manna bát og róa afstað er eitthvað sem ég bjóst aldrei við að stunda.
Námið er 3.5 – 4 ár, eftir það er ég ekki viss, en samböndin sem ég hef myndað við Oxford hafa núþegar opnað fyrir allskonar tækifæri og ég er því viss um að framhaldið eigi eftir að sjá um sig sjálft. Hingað til er ég mjög hrifin af Bretlandi og því góðar líkur á því að ég haldi mig hérna.
Það getur verið spennandi að fara út í nám, ég hef sjálfur áður stundað nám í Bandaríkjunum og Þýskalandi, en það sem er gott við Bretland er að það er alltaf stutt heim, sem er stærri kostur en mig hefði grunað. Einu ráðin sem ég get veitt er að kynna sér skólann og umsóknarferlið vel fyrir umsóknarfrest, það er mikið af tækifærum í boði og auðvelt að missa af þeim.
Explorer sjóðurinn, og sérstaklega SPIN verkefnið, er mikilvægur hluti þess sem gerði mér kleift að sækja nám til Bretlands, og fyrir það er ég þakklátur, en það var reyndar vinur minn sem sagði mér frá honum, hvernig hann fann sjóðinn er ég ekki viss!