Doktorsnám í Rice-háskóla í Houston, Texas
Magnús og Sólveig eru doktorsnemar í Rice-háskóla í Houston, Texas
Magnús Örn Sigurðsson, doktorsnemi í félags- og menningarmannfræði
Sólveig Ásta Sigurðardóttir, doktorsnemi í enskum bókmenntum
Taco, olía og ólíkir menningarheimar
Sumir halda kannski að það sé eitthvað voða töff að vera í námi í stórborgum eins og New York, Berlín, London, París, eða Los Angeles en svo er ekki. Það er lang mest töff að vera í stórum iðnaðarborgum, sérstaklega bílaborgum sem hafa sérhæft sig í olíuiðnaði en eru farnar að hugsa sinn gang eftir síendurtekna þúsundárastorma. Houston er fjórða stærsta borg í Bandaríkjunum. Hér eru engin fjöll í næsta nágrenni og það sem ber við himinn eru stór eikartré og stöku pálmatré, háhýsin í miðbænum og í öðrum kjörnum líkt og sjúkrahúshverfinu við hliðina á skólanum okkar, Rice-háskóla. Við erum í doktorsnámi og fengum Fulbright styrk frá íslensku Fulbright-stofnununni til þess að hefja það nám og áframhaldandi stuðning hér úti í Bandaríkjunum. Magnús í félags- og menningarmannfræði og Sólveig í enskum bókmenntum. Rannsókn Sólveigar snýr að bandarískum 19. aldar bókmenntum, hugmyndum um eignarhald lands með tilliti til kynþáttar, þjóðernis og stéttar á tímum fólksflutninga og Magnús rannsakar vald og merkingu skrifræðis innan þeirrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem þjónustar Parísarsáttmálann og aðra alþjóðasamninga um loftslagsmál (UNFCCC). Rice-háskóli var stofnaður árið 1912 og er hýstur í mörgum byggingum á skólasvæði sem afmarkast af stórum demantalaga gróðursælum reit í um klukkustundar göngufjarlægð vestur af miðbæ Houston. Reyndar er ekki algengt að tala um göngufjarlægðir hér, enda er Houston fyrst og fremst skipulögð fyrir bíla. Á síðustu árum hefur þó verið unnið að því að gera ákveðin svæði aðgengilegri fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. Eitt af þeim svæðum eru hverfin sem við búum í fyrir norðan háskólasvæðið, enda hjólum við allra okkar ferða. Eða svona næstum því, ef við þurfum að komast eitthvað lengra þá eru fínar almenningssamgöngur á ákveðna staði innan borgarinnar og líka hægt að leigja bíla til skamms tíma á háskólasvæðinu.
Það getur verið erfitt að dvelja í útlöndum á stað sem er ólíkur heimaslóðum manns, sérstaklega þegar nýi staðurinn er brennheit borg með sementsgráum umferðamannvirkjum sem myndu hlæja að þó allt of stóru umferðarslaufumannvirkjunum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. En þegar maður aðlagast nýjum stað tekur fljótlega yfir sú tilfinning að dvölin breikki og breyti sýn manns á veröldina—væmið en satt! Sem nemendur höfum við fengið að kynnast háskólamenningu sem er ólík þeirri sem við þekktum, bæði bandarískri háskólahefð en líka þeirri tilteknu menningu sem fyrirfinnst innan hverrar háskóladeildar og innanskólastofnunar sem við erum hlutar af. Hvernig prófessorar rækta samband við nemendur sína, hvernig nemendur og prófessorar rækta andann í deildinni með fyrirlestrum sín á milli og gestafyrirlestrum svo dæmi séu tekin. Við höfum myndað vinatengsl við samnemendur okkar, nemendur okkar, og fengið að kynnast nemendum og kennurunum í öðrum skólum gegnum ráðstefnur innan okkar greina. Þessi reynsla mun án efa nýtast okkur vel þegar við snúum aftur heim til Íslands, t.d. í háskólasamfélaginu þar.
Eitt af því sem við kunnum best að meta í Houston er maturinn og veðurfarið. Hér geta reyndar komið hitabeltisstormar sem valda manntjóni og eignatjóni sem er ójafnt dreift á ríkt og fátækt fólk vegna hugsunarlítils og skeytingarlauss skipulags borgarinnar. Blessunarlega höfum við sloppið vel út úr slíkum hamförum í þessi 2-3 ár sem við höfum verið hér. Að stormunum undanskyldum er hér notalegt sumarveður nær allt árið fyrir utan sjálfa sumarmánuðina þar sem hitinn getur farið yfir 40 stig í mjög röku loftslagi. Houstonbúar lýsa sumrinu líkt og Íslendingar myndu lýsa vetrinum. Hásumarið er sá tími ársins þegar fólk heldur sig innandyra en haustin, veturnir, og vorin tíminn sem fólk nýtur lífsins utandyra.
Texas-fylki var sjálfstætt ríki í nokkur ár (1836-1846) og þar á undan var svæðið hluti af Mexíkó. Hér mætast ólíkir menningarheimar og á sama tíma ríkir einskonar þjóðerniskennd meðal allra þessara ólíku Texasbúa. Sú þjóðrækni snýr þó ekki einungis að kúrekum og olíuvinnslu heldur einnig að því að Houston er sú borg sem hefur mesta fjölbreytni hvað varðar uppruna borgaranna. Stór hluti íbúanna er frá Mið – og Suður Ameríku, Asíu og Norður Ameríku. Stærstu tungumálahóparnir eru síðan enska, spænska og víetnamska. Margir hafa flutt til borgarinnar í leit að atvinnutækifærum en verðlag hefur verið lægra hér en víða annarsstaðar í Bandaríkjunum. Það er sjaldgæft að hitta fólk sem ólst hér upp, flest fólk sem við kynnumst er tiltölulega nýbúið að koma sér fyrir hér. Við eigum reyndar eina sjötuga vinkonu sem ólst upp í borginni og er mikill talsmaður hennar. Pabbi hennar stofnaði Houston Chronicle, stærsta dagblaðið hér og hún þekkir því borgina út og inn. Hún segir einnig að fjölskylda hennar hafi verið grænmetisætur í margar kynslóðir og því nái steríótýpan um kúrekann sem borðar bara kjöt, alls ekki yfir alla hér enda mjög fjölbreytt matarmenning meðal íbúa. Við höfum reyndar aldrei séð neinn með kúrekahatt en höfum heyrt að þeir séu vinsælir í öðrum hlutum Texas.
Matarmenningin hér er eitt það besta við borgina. Hér eru ófáir mexíkóskir veitingastaðir þar sem hægt er að fá besta mat sem við höfum smakkað. Við hjólum oft að einum taco bíl sem er staðsettur í næstu götu við okkur, kaupum nokkur taco eða quesadilla og setjumst niður á útibar, eða “ice house” þar sem hægt er að fá drykki og spila körfubolta. Svona “ice house” eða íshús eru barir sem voru hálfgerðar samfélagsstofnanir hér áður fyrr, fyrir tíma loftkælinga. Ís var fluttur á slíka staði, eða framleiddur þar og fólk úr nágrenninu kom og kældi sig niður kringum viftur, stóra ísklumpa og kalda drykki yfir hásumarið og heitasta tíma dagsins. Samfélagsstofnun lýsir reyndar vel íshúsinu í okkar hverfi því þar hafa verið haldnar ófáar safnanir fyrir fjölskyldum fólks sem vinna eða búa á svæðinu, t.d. fólki sem stendur frammi fyrir himinháum sjúkrahúsreikningum, eins og þykir venjulegt hér í landi. Síðasta söfnun sem þar fór fram var eftir fellibylinn Harvey en þá gat fólk komið þangað með teppi eða aðrar nauðsynjavörur og sama sinnis leitað þangað eftir aðstoð. Kannski ekki það almannakerfi sem við erum vön en þetta er kerfið hér og hér er fólk, fullt af fólki í borg sem telur meira en tvær milljónir manna og hér erum við tvö og verðum áfram í nokkur ár, að læra.