Læknisfræði á Kýpur
Frásögn eftir Erlu Guðbjörgu Hallgrímsdóttur, birtist fyrst í blaðinu Sæmundi sem gefið er út af SÍNE.
Ég stunda læknisfræði á hinni yndisfögru Miðjarðarhafseyju Kýpur í skólanum European University Cyprus (EUC). Læknisfræðideildin í EUC var stofnuð árið 2013 og er skólinn nýstárlegur með háþróaða eftirlíkingu af sjúkrahúsadeild og gínur sem læknanemar fá að spreyta sig á áður en þau mæta upp á sjúkrahús. Eins og gefur að skilja leggur skólinn mikið upp úr tækni, sem hefur nýst vel á tímum covid og fjarkennslu. Í faraldrinum hefur EUC komið til móts við nemendur, m.a. að leyfa og hjálpa nemum að vera í verknámi í sínu heimalandi og senda búnað svo nemar geta æft sig, t.d. blóðþrýstingsmæla. Annars er hverju ári skipt í tvær annir og á fyrstu þremur árunum eru kennd 5 fög á hverri önn. Dögunum er líka skipt í tvennt: bóklegt og verklegt. Það eru tvær prófatíðir á önn: miðannar- og lokapróf. Skólaárið klárast yfirleitt í lok maí eða byrjun júní og næsta skólaár byrjar í september. Þetta langa sumarfrí gefur kost á góðri sumarvinnu sem hefur nýst vel í að safna fyrir vetrinum.
Sólin heillaði
Þegar ég var að sækja um háskólanám kom ekkert annað til greina en að fara til útlanda, það hefur alltaf verið draumurinn. Mig langaði að kynnast nýrri menningu, nýjum hugarheim og nýju fólki. Þegar ég byrjaði að svipast eftir námi, vissi ég ekki hvað mig langaði að leggja fyrir mig. Ég tók árspásu, las um allskonar nám, ýmsa skóla og staði. Eftir það var ég ákveðin að fara til Kýpur ef það tækifæri skyldi bjóðast.
Kýpur bauð upp á nýtt nám í alþjóðlegu umhverfi og mér leist vel á námskrána. Auðvitað skemmdi náttúran og sólin ekki en mig langaði að næstu ár ævi minnar væru á stað sem mér myndi líða vel, þá sérstaklega samhliða þessu erfiða námi.
Ómetanlegt að fljúga úr hreiðrinu
Ég mæli eindregið með að fara út í nám, hvort sem það er allt námið eða nokkra vikna skiptinám. Reynslan sem fylgir því að fljúga úr Íslandshreiðri er ómetanleg. Nám erlendis veitir nemum ný tækifæri og nýja sýn á lífið, það kynnir manni fyrir nýjum vandamálum og nýjum lausnum, og svo er þetta einfaldlega svo gaman!
Ég mæli með að þau sem ætla sér út í nám að kynna sér vel skólanna sem þau eru að sækja um. T.a.m. er mikilvægt kynna sér stefnur skólans, námskrá og kennaranna.
Annað sem ég hef einsett mér að skrifa ekki undir langtímaleigu fyrr en ég hef fengið að labba um og skoða nágrennið. Ég og unnustinn minn ákváðum t.a.m. að vera aðeins lengra frá skólanum í litlu hverfi þar sem flestir íbúar eru Kýpverjar og það var stutt í matvöruverslun og líkamsræktarstöð.
Áður en við lögðum af stað til Kýpur vorum við svo heppin að hitta á Íslendinga sem búa á Kýpur sem mældu með að pakka niður föðurlandi og ullarsokkum fyrir dvölina. Ég vil koma þessum ráðum áfram. Við Íslendingar þekkjum ekki að vera kalt inni en það eru ekki öll lönd svo heppin.
Verið líka opin fyrir öðruvísi matarmenningu! Bakarí er ein besta leið til að sjá mun á milli landa. Bakarí á Kýpur eru ekki með snúða með glassúr eða kleinur. Þau eru með feta og ólífu fyllt brauð og ýmiss sætindi með hunang. Ég mæli líka með að smakka kýpverskt kaffi og rósa ís.
Síðasta ráðið mitt er að nota eins mikið af fríum til að skoða landið. Þó það sé freistandi að nýta þau frí og ferðast heim og vera með fjölskyldu og vinum þá er þetta góður tími til að kynnast nýja landinu og allt sem það hefur uppá að bjóða.
Það einna helst sem kom mér á óvart voru reykingarnar og flokkun, eða frekar hversu léleg þau voru í að flokka rusl. Kýpverjar reykja mikið og er reykt á skólasvæðum. Einu sinni í kennslupásu leitaði ég ráða til kennara sem bað mig að stíga með sér út svo hann gæti fengið sér sígó. Hann hafði verið að fræða okkur um afleiðingar af sígarettureykingum…
Ég vil hvetja alla nema sem huga að námi erlendis að skoða alla þá kosti sem eru í boði. Heimurinn hefur upp á svo margt að bjóða, taktu þinn tíma að kynna þér kostina sem henta þér. Og ef þú stefnir til Kýpur, ekki hika við að hafa samband!