Leikaranám í Kaupmannahöfn

Þessi grein birtist fyrst í tímariti SÍNE, Sæmundi. Höfundur greinarinnar er Matthías Harðarson.

 

Ég heyrði fyrst af CISPA (Copenhagen International School of Performing Arts) á meðan ég var enn í sálfræðinámi við Háskóla Íslands. Leiklist hefur heillað mig frá því ég man eftir mér en aftur á móti hef ég ávallt verið feimin við þann draum. Í stað þess að eltast við drauminn tók ég þá ákvörðun að skrá mig í nám sem á yfirborðinu virtist vera praktískara, líklegra til að nýtast mínum hagsmunum, þó svo að áhugi minn fyrir því risti ansi grunnt. Á sama tíma hafði ég einnig verið iðnaðarmaður í þónokkur ár og fann ég fyrir að áhugi minn fyrir því að stýra byggingarkrönum daginn út og inn væri einnig að þrotum kominn. Þegar að því kom að litla ljóta veiran meinaði okkur öllum upprisu úr sófanum tók við mikil innskoðun. Ég, eflaust líkt og margir aðrir upplifði gríðarlegt tilgangsleysi. Jólaprófin höfðu endurspeglað minn innri drifkraft í náminu. Ef ég man rétt þá stóðst ég lágmarkskröfur eins áfanga af þeim fjórum sem ég hafði tekið mér fyrir hendur haustið 2019. Áhugaleysið birtist mér nú skýrum stöfum, prentað svart á hvítu. Eftir að kærastan mín eyddi tæpum tveimur árum í að sannfæra mig um að ég ætti heima í leiklist og hafandi eytt tveimur árum í að fussa, sveia og segja ‘nei það er bara fyrir svona kúl týpur’ þá lét ég loks slag til standa. Því er vart hægt að koma í orð hve logandi hræddur ég var við tilhugsunina að ætla að byrja að koma mér á framfæri, þá á 27unda aldursári. Ég var mjög feiminn með þessa löngun mína sem ég taldi gera mig reynslulítinn og óundirbúinn á þessu sviði sem ég hugðist stíga mín fyrstu spor á. Engu að síður þá mætti ég í áheyrnarprufu sem var haldin á Zoom. Þökk sé litlu ljótu veirunni.

 

Áheyrnaprufur á Zoom

Illa sofinn og sveittur á efri vörinni heilsaði ég framtíðar kennurum mínum rafrænt á Zoom fundi þennan örlagaríka júnímorgunn. Til allrar hamingju var prufunni stýrt á annan máta en ég átti von á. Í stað þess að sitja stóískir og þögulir á bak við skjáinn á meðan ég flutti textann sem ég hafði undirbúið þá tóku kennararnir virkan þátt, gáfu mér endurgjöf og báðu mig að breyta flutning á grundvelli endurgjafar á svokallaðan ‘Workshop’ máta. Ég fór með einræðu og söng lag sem ég hafði æft vikum saman, sem og að sýna dans sem ég hafði smíðað með hjálp frænku minnar sem var svo góðhjörtuð að lána mér tíma sinn og hæfni í Kramhúsinu þar sem hún kennir dans.

Eftir áheyrnina var ég handviss um að ég hefði svo sannarlega ekki staðist hana og hugðist leita mér að sambærilegu námi annars staðar en ekkert varð úr þeirri leit, daginn eftir vaknaði ég við tölvupóst frá Lars Henning, eða Lalla Rektor, eins og hann er gjarnan kallaður af íslenskum CISPA nemum. Í póstinum byrjaði hann á að þakka mér fyrir að hafa komið mér  á framfæri og reynt mitt besta, í kjölfarið bauð hann mér pláss á næsta námsári og þar með myndi þriggja ára nám mitt í leiklist hefjast.  Ég þáði boðið í sigurvímu með metnað út á kinnar. Í kjölfarið eyddi ég því sem eftir var sumars í leit að íbúðum í Köben á milli þess sem ég gekkum eins og uppvakningur vegna næturvakta. Ég fann mér íbúð og narraði kunningja minn sem einnig var á leið til Köben í nám til að deila með mér leigu og híbýlum fyrst um sinn.

 

Draumaborgin Köben

Að búa í Köben er draumur í dós. Ég hef enn ekki saknað þess að eiga bíl, þökk sé samgöngum sem hannaðar eru út frá sjónarmiðum útópískra vísindaskáldsagna og vel útlátum hjólavegum sem gera hverjum og einum nær ókleift að standa ekki við að mæta tímanlega. Þessi sjónarmið endurspeglast hins vegar víðar en bara á leið í skólann. Það er löngu orðinn þekktur brandari hversu óhóflega skipulagðir gömlu nýlenduherrarnir okkar eru samanborið við okkur Íslendinga.

‘Þetta próf er í viku 7 og þessar sýningar munu standa yfir seinustu tvær vikur fyrri hluta vormisseris.Það að þú sért ekki með vasareikni og dagatal skrúfað inn í framheilann á þér skrifast á þig’.

Ég vildi óska þess að þetta skipulagsblæti hefði síast inn í áætlunarlata Íslendinginn en því miður er raunin ekki sú.

 

Á mínu öðru námsári byrjuðu barir og skemmtistaðirað opna faðm sinn á ný fyrir þá sem vildu sækja þá heim í ljósi þess að litla ljóta veiran hafði verið svo gott sem afmáð með bólusetningum. Það var þá í fyrsta skipti sem ég sá marga samnemendur mína utan veggja skólans en innan þeirra vörðum við vanalega 40-50 klukkutímum í viku. Með þessu mikla tímaálagi og þeirri óumflýjanlegu staðreynd að leiklist er staðnám byrja að myndast gríðarlega sterk tengsl milli nemenda. Þó svo margir flytji aftur til sinna heimalanda að námi loknu, þá líkar einnig mörgum við að búa hér í Kaupmannahöfn. Margir setjast hér að til lengri tíma og halda listsköpun sinni áfram með þeim sem þau höfðu lært í CISPA eða þá þeim sem þau hafa kynnst í gegnum skólann. Fyrrum  nemendur eru þá gjarnan innan handar fyrir þá sem þurfa hjálp með verkefni í formi leikara eða leikstjóra.

 

Sjálfstæði í listsköpun

Mér fannst dýrmætasti þátturinn við að finna nám fjarri heimahögum sú hvatning sem skapast þegar maður hefur ekki sitt gamla tengslanet til að reiða sig á. Námið sjálft leggur mikla áherslu á að nemendur vinni sjálfstætt og býr okkur undir að skapa verk upp á eigin spýtur. Eitt af okkar seinustu verkefnum á lokaári er að búa til sýningu og sýna utan veggja skólans, án hjálpar, þá annað hvort í litlum hópum eða ein. Þetta verkefni var eitt af þeim mest krefjandi sem ég hef reynt við á minni skólagöngu en mér tókst að leysa það með hjálp bekkjarfélaga sem féllust á að sýna allar okkar sýningar í sameiningu í leikhúsi sem mér var bent á af fyrrum nemanda.

 

Fyrir þá Íslendinga sem hafa áhuga á að læra leiklist og umfram það, að fá tækifæri og tól til að skapa sjálfstætt, þá mæli ég tvímælalaust með að sækja um í CISPA. Óháð námi þá mæli ég einnig með því að hver og einn nýti sér tækifærið að læra erlendis. Við Íslendingar njótum þeirra sturluðu forréttinda að vera tekin opnum örmum nær alls staðar og það er tækifæri sem við ættum að nýta okkur, sem og að endurgjalda rausnarlega.

Að fá að búa og læra í nýju landi veitir hverjum og einum tækifæri til að kynnast því hvernig hann hagar sér án þess að vera ávallt umkringdur eigin öryggisneti,  ja, eða bara að kaupa vín í Nettó.

Man in a gray suit walking on stage in a theater production. He has glasses and brown hair and is also wearing a white turtle neck shirt.