Nám í Alþjóðasamskiptum í París

Frásögn er eftir Ásgerði Ólöfu Ásgeirsdóttur og birtist fyrst í blaðinu Sæmundi, sem gefið er út af SÍNE.

Ég stunda nám við Sciences Po háskólann í París. Skólinn er meðal fremstu háskóla á sviði stjórnmálafræða og alþjóðasamskipta. Sciences Po er stytting á franska orðinu fyrir „stjórnmálafræði“ (fr. sciences politique). Skólinn það sem kallast Grande École, og er einn af gamalgrónum háskólum Frakklands sem eru samkeppnishæfir, opinberir háskólar – svipaðir eins og Ivy League-háskólar Bandaríkjanna. Hann var stofnaður árið 1872 af Émile Boutmy og vinum hans, hópur fræðimanna sem óttaðist að vanhæfni meðal stjórnmálamanna og erindreka myndi leiða til endaloka Frakklands sem stórveldi. Þess má til gamans geta að LSE háskólinn í Bretlandi, sem stofnaður var árið 1895, notaði námskrá og uppsetningu Sciences Po háskólans sem fyrirmynd.

Ég stunda meistaranám í alþjóðasamskiptum og opinberri stefnumótun (e. international public management). Nú er búið að breyta nafni námsleiðarinnar í ríkiserindrekstur og opinber stjórnun (e. diplomacy and public governance), sem lýsir eiginlega námsleiðinni mun betur. Mér bauðst að leggja áherslu á ákveðin málefni innan alþjóðasamskipta og ég valdi að leggja áherslu á diplómatíska aðferðafræði og Evrópusamstarf. Meistaranámið við skólann er tvö ár og er þriðja önnin tileinkuð þremur valkostum; hægt er að velja á milli að skrifa hefðbundna meistararitgerð, fara í skiptinám eða fara í starfsnám. Valkostirnir eru gefnir til þess að bjóða nemendum upp á upplifa sjálfir alþjóðasamfélagið og samskipti innan stjórnmálageirans. Ég valdi að fara í starfsnám hjá Evrópuráðinu á minni þriðju önn. Ég þurfti samt að gera meistararitgerð en í smækkaðri mynd, um verkefni tengd Evrópuráðinu, og verja hana fyrir dómnefnd.

Ég er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og alþjóðalögfræði og vildi sérhæfa mig í alþjóðlegum stjórnmálum, en mér þótti erfitt að velja námsleið; mér leist vel á eina sem snerist um ábyrgð fjölmiðla í alþjóðlegu stjórnmálasamfélagi, aðra sem snerist um Evrópusamstarf og svo eina aðra sem snérist að mannréttindum og alþjóðlegum mannréttindalögum. Ég ákvað eiginlega að fara í þetta allt þar sem mín námsleið bauð mér upp á að velja áfanga um mismunandi málefni með því markmiði að greina áhrif og hlutverk stjórnvalda, einkageirans og alþjóðlegra samtaka á samfélagið. 

Tungumál og framtíð enskunnar

Mér þótti það tilvalið sem nemandi í alþjóðasamskiptum að prófa að búa erlendis. Ég hef lengi vel verið mikil áhugamanneskja um Frakkland og franska tungu og það vill svo til að franska er mest talaða tungumál innan stjórmálageirans á alþjóðavísu – á eftir enskunni, auðvitað. Frakkar og Belgar hafa þannig spilað mikilvæg hlutverk þegar kemur að alþjóðlegu samstarfi, en Atlantshafsbandalagið (NATO) og Evrópusambandið (ESB) eru með sínar bækistöðvar í Brussel, á meðan Evrópuráðið (Council of Europe) og fleiri þekktar alþjóðastofnanir eru staðsettar í Frakklandi. Fyrir þá sem vilja vinna fyrir hönd Íslands á alþjóðavettvangi er gott að hafa góð tök á Norðurlandatungumáli og frönsku – verst er að mér gengur heldur illa að ná tökum á þeim! 

Til dæmis hefur verið umræða meðal franskra stjórnmálamanna um framtíð enskunnar innan Evrópusambandsins. Opinber tungumál Evrópusambandsins eru 24 en eru enska, franska og þýska notuð mest við störf sambandsins. Vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa Frakkar og aðrir áhugamenn frönskunnar verið talsmenn frönskumælandi (e. francophone) Evrópusambandi vegna þess að aðeins 1% íbúa ESB hafa ensku að móðurmáli (verið er að vinna að því að gera írsku að opinberu tungumáli ESB). Með þessum rökum ætti þó franskan að víkja fyrir þýskunni, þar sem 20% íbúa ESB hafa hana sem móðurmál sitt, en 14% frönskuna. Hinsvegar hafa 44% íbúa ESB ensku sem annað tungumál, og því skiljanlegt að opinberar tilkynningar og störf stofnana innan ESB séu birt fyrst á ensku – og síðan þýdd yfir á hin 23 tungumálin – svo skilaboðin komi sem fyrst til skila til flestra. 

Heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn

Heimsfaraldurinn skall á áður en ég náði að klára fyrsta árið mitt í náminu og ég flúði til Íslands í mars 2020, en fór aftur til Frakklands í september. Ég var mjög heppin með starfsnám, Evrópuráðið bauð upp á starfsnám á staðnum, í Strassborg, og þrátt fyrir að geta ekki fengið að fylgjast með málaferlum innan Mannréttindadómstóli Evrópu eða fundum Ráðherraráðsins (vegna fjöldatakmarkana) þá fékk ég að mæta til vinnu á skrifstofu, borða hádegismat með öðrum starfsnemum og fleira sem maður tók sem gefnu fyrir heimsfaraldurinn.

Fjölmenning og sérstaða Íslands

Ég mæli sannarlega með því að íslenskir námsmenn fari í nám erlendis. Maður getur lært svo mikið af því að kynnast öðrum áherslum en þeim sem tíðkast á Íslandi. Mér fannst til dæmis mjög áhugavert að fara til Frakklands, þar sem hinn venjulegi, franski stjórnmálafræðinemi þekkir stöðu Norður-Afríkulanda líkt og Algeríu og Líbýu mun betur en íslenskir, vegna tengsla sem Frakkland hefur við þessi lönd, og lærði ég mikið af þeim. Í mínu námi kynntist ég allskonar fólki allsstaðar að. Eitt verkefni vann ég með pakístanskri konu sem hafði setið á þingi í heimalandi sínu, hún hafði öðruvísi hugmyndir að því hvernig við ættum að nálgast verkefnin en rússnesk, ung kona af auðugum ættum sem hafði svo öðruvísi sýn á verkefnin en franskur karlmaður sem hafði verið smyglað sem barn á flótta frá Algeríu til Frakklands. Í slíkri fjölmenningu lærir maður að taka sig ekki of alvarlega. 

Mér þykir líka mjög mikilvægt að íslenskir námsmenn fari í nám erlendis vegna sérstöðu okkar. Mér fannst til dæmis mjög gaman að geta mætt í tíma í áfanga um utanríkisstefnu Kína og sagt kennaranum og nemendunum frá því hvernig viðvera kínverska námufyrirtækja á Grænlandi hafði áhrif á að grænlenska landstjórnin sundraðist í byrjun árs 2021. Þau höfðu ekkert heyrt um kínverskan námugröft á Grænlandi og var þessum vangaveltum mætt með áhuga – kennarinn var ánægður með að geta tengt þetta við stórveldapólítikina á milli Bandaríkjanna og Kína!

Góð ráð fyrir þá sem huga að námi í París 

Mitt helsta ráð er að gleyma þér í landinu sem þú flytur til. Í nútímasamfélagi er mjög auðvelt að búa til dæmis í París án þess að upplifa París – sérstaklega þegar maður fer í alþjóðlegan skóla. Mikilvægt er að reyna að njóta þess að setjast á franskt kaffihús í staðinn fyrir Starbucks, hlusta á franska útvarpsstöð í stað þess að hlusta á íslenskt hlaðvarp og fara í bíó á franska kvikmynd – þótt maður skilji ekki neitt. 

Í Frakklandi skaltu búa þig undir allskonar bardaga við franska skrifræðið. Þú átt eftir að þurfa að fylla út blöð sem virðast vera algjörlega óþörf en gert að máli upp á líf og dauða – til þess eins að fá aðgangskort í neðanjarðarlestina, til dæmis. Svo lærir maður inn á kerfið og man að draga djúpt andann, en til þess að þurfa að vesenast sem minnst í þessum málum mæli ég með að leigja íbúð þar sem internet og wifi-tenging er innifalin, það mun spara þér mikinn tíma og tár. Frakkland allt er ofboðslega fallegt – en ég mæli ekki með að ætla að spara pening með því að leigja í útjaðri borgarinnar þegar þú getur búið í lítilli íbúð (chambre de bonne) í Haussmann-byggingu með þrjú bakarí innan 10 metra radíus, fyrir aðeins meiri pening.

Krefjandi en gefandi að stunda nám erlendis

Námið sjálft var vissulega erfitt en ég var vonsvikin yfir því hvað mér gekk illa að læra frönsku á meðan ég var í námi á ensku. Maður hefur lítinn tíma fyrir annað en námið sjálft og jafnvel þótt ég var tvisvar sinnum í viku í frönskutímum, sem var innifalið í náminu, fór öll mín helstu samskipti fram á ensku. Ég var hörð á því að þegar ég myndi flytja til Frakklands þá ætlaði ég að tala frönsku við allt og alla þegar ég gat. Síðan kemur maður til landsins og finnur fyrir óörygginu sem fylgir því að flytja út og fer fljótt að skipta yfir í enskuna til þess að róa taugarnar. Mig langaði afskaplega að taka að mér aukavinnu á kaffihúsi bara svo ég neyddist til að ná almennilegum tökum á tungumálinu, en þá held ég að ég hefði alveg brunnið út!

Það kom mér á óvart hversu auðvelt það er að flytja út og kynnast nýju fólki. Mér fannst vel tekið á móti mér hvort sem það voru heimamenn eða aðrir alþjóðlegir nemendur sem voru líka fluttir að heiman til þess að kynnast fólki frá öðrum löndum, læra nýja siði og menningu annarra.

Mér finnst mikilvægt að þau sem stunda nám við hugvísindi taki sér tíma til þess að stunda eitthvað af náminu erlendis. Þessi reynsla getur gefið manni nýja sýn á lífið og getur fært manni hæfni til þess að skilja náungann betur. Allflestir sem ég hef talað við sem hafa búið erlendis segja það saman þegar þeir koma heim; maður lærði hvað við á Íslandi höfum það gott. Hvort sem það er aðgengi að heilbrigðisþjónustu (sem að mínu mati vantaði reyndar ekki upp á í Frakklandi) eða upphitun á húsum (sem að mínu mati vantaði mjög mikið upp á í Frakklandi), þá er gott fyrir alla að prófa að upplifa öðruvísi aðstæður. 

Tungumálakunnátta er málið

Þegar ég var í menntaskóla fannst mér þeir sem fóru í skiptinám vera lúðar. Um leið og ég var orðin of gömul til að skrá mig í skiptinám í gegnum AFS þá áttaði ég mig á því að þessir lúðar voru bara krakkar sem voru ansi hugrakkir fyrir að ákveða að vera í eitt ár í erlendu landi, kunna kannski ekki tungumálið og þekktu engann fyrir. 

Þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla fannst mér þau sem fóru sem aupair vera bara krakkar sem elskuðu börn. Núna þegar ég er orðin eldri þá hef ég áttað mig á því að ég var sem ung manneskja hrædd við ábyrgðina sem fylgir því að passa börn og fannst þau bara vera nokkuð hugrökk fyrir að þora að fara til erlends lands, ókunnugrar fjölskyldu og passa börn sem þau þekkja ekki neitt. 

 Þegar ég kláraði B.A.-námið mitt við Háskóla Íslands áttaði ég mig á því að með því að stimpla skiptinema sem lúða var ákveðið hegðunarmynstur af ótta og öfundsýki, ég hefði aldrei þorað sjálf að fara eitt ár út, missa af vinum mínum og öllu því skemmtilega slúðri sem væri að gerast hér heima. Hver einasti skiptinemi sem ég þekki hefur sagt; „þegar ég kom heim, þá var allt eins, ekkert breyttist á meðan ég var úti, jú sumir byrjuðu saman, aðrir hættu saman. En ég kom heim eftir að hafa kynnst nýrri menningu, lært nýtt tungumál og eignast nýja fjölskyldu. Það sem ég sá eftir því að hafa ekki farið í skiptinám. 

Nú er ég 27 ára mastersnemi með þráhyggju fyrir því að læra tungumál. Mér finnst mest töff liðið á Íslandi vera fólkið sem kann önnur tungumál en íslensku og ensku.