Nám í Danmörku

Höfundur Birgitta Sigurðardóttir er meistaranemi í Viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar og sat í embætti formanns félags Íslendinga í CBS árið 2016-2017

Hvernig nær Ísland samkeppnisforskoti sem þjóð ef mannauðurinn er ekki til staðar?

Að fá að sækja sér menntun í öðru landi en heimalandi eru forréttindi. Aukin þekking og reynsla við að búa í öðru landi skilar sér í sterkari og víðsýnni einstaklingi. Það þarf vart að nefna að ávinningur menntunar er því samfélagslegur og eykur lífsgæði landsmanna.

Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) hefur það að markmiði að veita öllum jafnan rétt til náms. Það helsta sem er ábótavant hjá LÍN er lág framfærsla og ekki er gert ráð fyrir upphafskostnaði sem felst í því að flytja erlendis, t.d. leigutryggingu, sem oft telur á hundruði þúsunda. Svo með frítekjumarkinu er komið í veg fyrir að hægt sé að safna sér inn pening fyrir flutningum, þar sem umfram tekjur yfir markið skerða framfærslu.

Eftir að hafa upplifað nám í Danmörku sér maður hlutina í öðru ljósi. Þegar OECD ríkin eru skoðuð sést að Danmörk er það land sem eyðir mestum pening í menntun af Norðurlöndunum, á meðan Ísland eyðir minnstum pening, þegar miðað er við hvern nemanda. Engin skólagjöld eru til staðar og SU (d. Statens Uddannelsesstøtte), sem er styrkur gefinn af danska ríkinu, felst í því að námsmenn fá styrk að upphæð 6.000 danskra króna á mánuði. Fyrir erlenda námsmenn innan EU/EES er skylda að námsmaðurinn starfi að lágmarki 43 klst á mánuði.

Nýlega fjallaði Viðskiptaráð um að fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar á Íslandi hafi dvínað hratt því sífellt erfiðara sé að fá störf við hæfi sem er grafalvarlegt. Hver er hvatinn að sækja sér nám ef það er enginn fjárhagslegur ávinningur?

Sú staða sem er uppi nú, að námsmönnum finnst einfaldlega aðstæðurnar heima ekki nógu spennandi. Ungt fólk situr eftir í kaupmáttaraukningunni á Íslandi sem er alvarlegt mál. Fasteignamarkaðurinn er að springa og úrvalið af minni íbúðum fyrir einstaklinga í lágmarki. Með núverandi kerfi er verið að koma í veg fyrir að ungt fólk geti safnað sér fyrir íbúð og þeim er troðið út á leigumarkaðinn þar sem verð eru yfir öllu meðallagi. Svo koma námslánagreiðslurnar og þá verður draumurinn um að fjárfesta í íbúð sífellt fjarri.

Gerum Ísland að spennandi og samkeppnishæfum áfangastað fyrir íslenska námsmenn erlendis. Hvernig nær Ísland samkeppnisforskoti sem þjóð ef mannauðurinn er ekki til staðar?