Það er ágætis tækifæri að fá að skrifa um og taka saman reynsluna af náminu mínu hér í Slóvakíu, svona þegar ég sé aðeins fyrir endann á þessu ofboðslega góða en jafnframt erfiða ævintýri! Ég heiti Auður Þórunn, er 24 ára Stokkseyringur á 5. ári, og ég held að hver einn og einasti nemandi geti tekið undir með mér þegar ég segi að stöðluðu svörin sem maður hefur að bjóða fjölskyldu, vinum, samstarfsfólki og ókunnugum þegar það spyr út í skólann og lífið hér úti – verða svolítið þreytt með árunum! Mér hefur fundist það erfitt að koma almennilega í orð hversu einstök og dýrmæt þessi reynsla hefur reynst mér á alla vegu.
Til að byrja með, þá snerist þetta einungis um að byrja námið í læknisfræði sem fyrst, vitandi af 6 ára löngu námi framundan. Það var fyrir algjöra tilviljun í mínum undirbúningi fyrir inntökuprófið á Íslandi, að ég sá auglýst það ætti að halda inntökurpróf í skólann hér úti, ég ákvað auðvitað bara að prufa það líka, og komst inn. Það var það góð tilfinning að vera komin með öruggt pláss í læknisfræði, að ég gat varla einbeitt mér að því að halda áfram undibúningnum fyrir inntökuprófið heima, ég hef líka alltaf stefnt á að læra erlendis og prufa eitthvað nýtt. Þannig að úr þessu öllu saman varð að leiðin lá til Slóvakíu.
Ég þekkti ekki nokkurn mann á leiðinni þangað með mér, en við vorum annar árgangurinn að fara til Slóvakíu, og fyrsti stóri hópurinn eða rúmlega 50 manns. Í dag erum við 27 nemendur í árgangnum, á undan okkur á ári voru 7 hugrakkir einstaklingar sem gáfu okkur smá von að þetta væri allt saman möguleiki! Í dag eru íslenskir nemendur á öllum 6 árunum. Skólinn er staðsettur í Martin, íbúafjöldi er rúmlega 55.000 manns, hér er engin ein stúdentablokk á vegum skólans heldur eru nemendur eru staðsettir í leiguíbúðum sem er oft að finna í blokkum sem byggðar hafa verið með þarfir nemenda í huga. Á milli okkar Íslendinga er einstakt og samheldið samfélag sem við höfum búið til á undanförnum árum. Árgangurinn minn þjappaðist fljótt saman, okkur í alþjóðlegu deildinni er skipt upp í bekki, þá ýmist með Norðmönnum, Svíum, Írum, Portúgölum, o.sv.frv. Skólinn bíður uppá einstaklega þægilegt bekkjarkerfi með 8-10 manns í bekk, sem þar að auki verða fljótt fjölskyldan manns hérna úti! Sem kemur að þeim punkti að flytja að heiman, að flytja erlendis – er eitt verkefni, að byrja nám í læknisfræði er annað, og þá er nauðsynlegt að eiga góða að. Í mínu tilfelli tók það mig smá tíma að átta mig á þessu, mikilvægi þess að ganga vel í námi og að eiga gott félagslíf utan skóla, hvað það helst sterkt í hendur hér úti. Þó að upprunalega hafi planið bara verið að “verða læknir” , þá sá ég fljótt að bara það að flytja út gaf mér svo margt meira.
Sem er einmitt það sem ég reyni að útskýra fyrir þeim sem hafa haft samband við mig persónulega og vilja koma út, en eru eitthvað hikandi. Þeim finnst yfirleitt langerfiðasta skrefið að flytja úr sínu umhverfi, frá öllum sínum vinum og yfir í eitthvað glænýtt og ókunnugt. Það er hinsvegar ótrúlegt sjálfstraust og frelsi sem fylgir því að demba sér bara útúr þægindarammanum, og það er varla hægt að lenda á betri stað en í Martin.
Þegar kemur að skólanum, þá er öll kennsla á ensku, við lærum tungumálið á fyrstu 2 árunum, það má segja að námið skiptist svolítið upp í 2 hluta, á fyrstu tveimur árunum eru bóklegu fögin í aðalhlutverki og verkleg raunvísindi. Á 3. ári fá nemendur smjörþefinn af spítala lífinu, þá byrja verklegir tímar á spítala og reynir þá fyrst á slóvakísku hæfileikana. Það er oft ansi skrautlegt hvernig fyrstu samtölin fara fram á milli okkar og sjúklinga, en einhvern veginn gengur það oftast upp! Á 4.-5. ári fáum við að spreyta okkur í hinum ýmsum greinum og erum við mest þar á deildum, bæði í fyrirlestrum og verklegum tímum. Lokaprófin eru yfirleitt munnleg, þá færðu úthlutað vissum spurningalista úr faginu og á prófdegi er algengt að draga 3 spurningar sem þú færð tíma til að skrifa niður, síðan sestu á móti prófessornum og svarar spurningunum munnlega, á ensku.
Þegar kemur að frítíma er ýmislegt brasað líka. Hér er einstakt landslag og mikill gróður, við erum staðsett norðanlega í Slóvakíu og allt í kring umkringd fallegum fjöllum, stutt í næstu fjallgöngu já eða skíðaferð. Við erum með virkt nemendafélag, FÍLS, sem hefur bæði komið af stað árlegri árshátíð okkar nemenda, skíðaferðum uppí Tatra fjöllin, pub-quiz, grillveislum, það fylgist með LÍN málum og hvað eina! Frá Slóvakíu liggja vegir bókstaflega í allar áttir og nýtum við okkur það mikið, vinsælt er að skreppa í dagsferðir eða lengri ferðir til Vínar, Búdapest, Kraków, Bratislava, Króatíu og fleiri staði. Í haust opnuðu svo yndislegir þjálfarar frá Zilina langþráða crossfit stöð hérna í miðbænum, það má segja að Íslendingar og Norðmenn haldi staðnum uppi, svo mikil er eftirsóknin! Það hefur margt breyst til hins betra frá mínum fyrstu árum, bæði tengt skólanum og samfélaginu. Eins og allstaðar þá hefur Slóvakía sína kosti og galla, hún getur oft verið eftir á í allskonar hugsunarháttum og venjum sem Ísland stendur framarlega í.
En það sem Slóvakía hefur kennt mér síðastliðin ár er klárlega virðing og umburðarlyndi fyrir náunganum, þolinmæði og sjálfstraust í mín verkefni, og mikilvægi þess að eiga góðan grunn að því sem ég tek mér fyrir hendur – að standa með því sem ég segi og geri. Vil benda á að FÍLS tekur á móti fyrirspurnum nýnema og er tilbúið að svara spurningum!