Nám í stjórnmálafræði í Bandaríkjunum
Frásögn er eftir Sigurð Þráinn Geirsson og birtist fyrst í blaðinu
Frásögn er eftir Sigurð Þráinn Geirsson og birtist fyrst í blaðinu Sæmundi, sem gefið er út af SÍNE.
Ég stundaði nám í stjórnmálafræði við University of New Hampshire og meistaranám í Georgetown University í Washington DC í conflict resolution. Grunnnámið var ósköp hefðbundið stjórnmálafræðinám fyrir utan það að nokkrir skylduáfanganna snéru alfarið að Bandarískri stjórnsýslu. Eins og í flestu fjögurra ára háskólanámi í Bandaríkjunum þurfti ég að taka áfanga sem gengu upp í það sem er kallað Gen Ed. Það felur í sér að óháð því námi sem maður er í, þá þarf að taka áfanga sem uppfylla kröfur sem gerðar eru um að ljúka námi, t.d. einum listaáfanga, náttúruvísindaáfanga, ritlistaráfanga o.s.frv.
Meistaranámið var mun áhugaverðara. Þá var ég bæði kominn með þrengra áhugasvið og spenntur fyrir meira krefjandi námi. Ég valdi Conflict Resolution deildina eftir að hafa heimsótt skólann og hitt stjórnanda deildarinnar. Úrvalið af áföngum var mjög spennandi, kennararnir við deildina reyndir og framarlega á sínum sviðum, og loforð um hagnýta áfanga í samningaviðræðum og sáttaumleitun hrifu. Námið var mjög krefjandi og fyrsta önnin litaðist mjög af því að ég var hluti af fótboltaliði skólans. Það var smá púsl að finna áfanga sem gengu upp þegar að ég þurfti að leggja fimm tíma á dag til hliðar fyrir æfingar og öðru tengdu boltanum. Tímabilið okkar kláraðist svo ekki fyrr en í lok desember og reyndist það ærið verkefni að halda í við lesefnið og milli þess ferðast með liðinu þvert yfir Bandaríkin. Síðustu tvær annirnar kláraði í ég fjarnámi og var kominn heim til Íslands. Venjulegur dagur var þá að vakna og læra yfir daginn og undirbúa fyrir tíma og svo voru umræðutímarnir flestir frá einhverstaðar milli þrjú á daginn til hálf tvö á nóttunni.
Háskólanám heima heillaði ekki.
Ég hafði aðeins þreifað mig áfram í háskólanum hér heima, fyrst í hagfræði og svo í heimspeki en ég sá ekki fyrir mér að taka 3 heil ár í þeim. Eftir ár frá námi fann ég svo að ég var aftur tilbúinn að fórna mér á altari fræðanna og ákvað að víkka leitina að námi. Þar sem ég var nú líka í fótbolta kom hugmyndin upp um að fara til Bandaríkjanna í nám og nýta tækifærið til að komast á styrk. Skólastyrkirnir sem ég fékk eru í raun lang stærstu „samningarnir“ sem ég hefði getað vonast eftir að fá út á fótboltann svo ég er gífurlega þakklátur fyrir tækifærin sem boltinn gaf mér.
Nokkur ráð til þeirra sem huga að námi í Bandaríkjunum
- Allavegana að skoða það að flýta námi. Oft er hægt að taka Gen Ed áfanga yfir sumrin og um jólin og/eða taka fleiri áfanga á önn en gert er ráð fyrir. Þetta getur verið smá auka vinna en fyrir vikið getur maður líka flýtt útskrift og sparað sér jafnvel heila önn á campus og tilfallandi kostnaði.
- Nýta úrræði! Sem alþjóðlegur nemandi er að nægu að huga og allskonar kröfur og skilyrði sem mikilvægt er að vera með á hreinu (don’t get me started á skattinum og sjúkratryggingum…). Til þess að koma til móts við nemendur bjóða skólar upp á allskonar aðstoð og stuðning og hvet ég þau ykkar sem farið út að kynnast ráðgjafanum ykkar vel því gott samband við þau getur verið dýrmætt ef eitthvað kemur uppá og það þarf að leysa úr einhverjum flækjum.
- Stofna bankareikning. Einfaldar lífið töluvert.
Skin og skúrir
Ég viðurkenni að það komu alveg tímabil þar sem ég hringdi í mömmu tvisvar á dag, ansi lítill í mér… Ég held að það sé mikilvægt að vera undir þann veruleika búinn að það skiptast alltaf á skin og skúrir. Það verður hellings tilbreyting að fara út en eins og með allt annað þá lærir maður með tímanum inn á umhverfið og taktinn. Áður en maður veit fara góðu og lærdómsríku stundirnar að yfirgnæfa allt hitt og þegar upp er staðið verða það þær sem þú munt muna best eftir.
Að fara erlendis í nám er stór ákvörðun og það er að mörgu að huga en ef það er vel ígrunduð ákvörðun að fara út þá segi ég: „100% já“. Þetta mun vera krefjandi á köflum, en ég get lofað þér því að þú munt líka læra heilan helling og skapa minningar til lífstíðar.