Nám í Svíþjóð með skiptinámi til Austurríkis og Bangladess

Viðtal við Lóu Ingvarsdóttur um reynslu hennar af námi í Svíþjóð, Austurríki og Bangladess.

1. Hafðir þú alltaf stefnt á nám erlendis?

Svona óbeint, ég hafði alltaf séð það sem spennandi kost og mér fannst það heillandi hugmynd að fá tækifæri til fara í nám og á sama tíma kynnast nýju tungumáli og menningu.

2. Segðu okkur frá skólanum og náminu þínu í Svíþjóð?

Við bjuggum í Lundi í suður Svíþjóð eins og svo margir Íslendingar hafa gert og maðurinn minn fór í meistaranám í mannréttindum við lagadeild Lundarháskóla. Fyrstu tvö árin var ég í jógakennaranámi með stórkostlegum alþjóðlegum kennurum. Námið var að hluta til kennt í fjarnámi en einu sinni í mánuði hittumst við og dvöldum langa helgi eða eina viku í litlum sveitabæ nálægt Varberg, sem er um þriggja klukkustunda ferðalag frá Lundi. Þetta nám gaf mér mjög mikið. Kundalini jóga er svo frábær tækni sem hjálpar manni að vera í góðu jafnvægi og vera trúr manni sjálfum, en námið krafðist þess að maður fór í mjög djúpa sjálfskoðun sem er svo hollt, gott og nauðsynlegt oft á tíðum.

Eftir að ég kláraði jóganámið fór ég að kenna í Lundi og fór síðan í meistaranám í alþjóðlegri þróunarfræði og stjórnun við Lundarháskóla. Þetta var þverfaglegt nám um þróunarsamvinnu með mjög ríka áherslu á verkefnastjórnun og innleiðingaferla og árangursmælingar innan þróunargeirans. Þetta var gríðarlega áhugavert og skemmtilegt nám, en ég tók eina önn í Bangladess þar sem ég vann með hjálparsamtökum við greiningar og annað slíkt.

3. Hvað kom til að þú ákvaðst að fara í skiptinám og hver fórstu?

Hluti af náminu var að fara í starfsnám til þróunarlands og ég heyrði af mjög áhugaverðu verkefni í Bangladess sem var styrkt af sænskum hjálparsamtökum. Þetta var verkefni sem snéri að því reyna að efla vitund og vitneskju kvenna í afskekktum þorpum í sveitum landsins um rétt kvenna með það að markmiði að auka þátttöku þeirra í samfélaginu. Mér þótti þetta einstaklega spennandi og verðugt verkefni og sótti því um. Bangladess glímir við mörg afskaplega stór vandamál með gríðarlegan fólksfjölda enda eitt af þéttbýlustu löndum heims. Þar er mikil fátækt og er landið hvað viðkvæmast fyrir hlýnun jarðar og hækkun yfirborðs sjávar og á sér stað mikil eyðilegging á hverju ári sökum mikilla flóða. Á þessum slóðum, sérstaklega í sveitunum, er litið á konur sem eign manns síns. Ég fór á milli sveita, í Netrakona sem er í norðurhluta landsins og hitti þar kvennahópa sem tóku þátt í verkefninu. Það var mjög gefandi að sjá hvað margar ungar stúlkur voru sterkar. Þær höfðu alla burði til að ná langt og fanga kraftinn innra með sér og nýta hann til að berjast fyrir jöfnum rétti kynsystra sinna og sýndu þor og hugrekki til að reyna að brjótast út úr þessu ævagamla og sorglega menningarmynstri. Þrátt fyrir að það sé ólöglegt samkvæmt þarlendum lögum að gifta ungar stúlkur (yngri en 18 ára) þá er samt ennþá í afskekktum sveitum verið að gifta kornungar stúlkur fullorðnum mönnum. Fólkið þekkir ekki lögin og trúir enn staðfast að með því að gifta ungar dætur sínar séu foreldrarnir að bjarga heiðri fjölskyldunnar og bjarga barninu úr enn verri fátækt.

Það var frábært að heyra af ungum þátttakenda í verkefninu. Fasima var 18 ára ótrúlega öflug og flott stelpa sem hreinlega gleypti í sig alla þá vitneskju og fræðslu sem hún mögulega gat komist yfir. Hún frétti af því að það ætti að fara að gifta 12 ára stelpu í þorpinu. Fasima gerði allt hvað hún gat til að koma í veg fyrir giftinguna. Því var ekki vel tekið og fékk hún margar hótanir en hún gafst ekki upp og hélt áfram að upplýsa foreldrana um í hvaða hræðilegu ánauð þau væru að leggja barn sitt. Að lokum eftir mikið streð tókst henni ætlunarverk sitt og mögulega bjargaði lífi þessarar 12 ára stúlku, en foreldranir ákváðu loks að hætta við brúðkaupið og fær því þessi 12 ára stúlka að halda áfram að ganga í skóla og að vera áfram barnið sem hún er.

4. Hvað fannst þér lærdómsríkast við það að fara í nám erlendis?

Það er í raun allt ferlið í heild sinni. Það að vera ókunnugur í nýju landi og þurfa algjörlega að treysta á sjálfan sig, og maka sinn eftir atvikum.

5. Ef einhver sem þetta les er að hugsa um að fara í nám erlendis, lumar þú á góðum ráðum handa viðkomandi?

Það er dýrt að fara í nám erlendis þó svo að það sé e.t.v. töluvert ódýrara að fara í framhaldsnám í Svíþjóð en í mörgum öðrum löndum. Ég myndi mæla með því að skipuleggja sig og undirbúa sig vel nógu tímanlega. Það þarf að huga að svo mörgum þáttum. Frábært að geta unnið hér heima eitthvað áður til að safna peningum. Síðan lærir maður á svona ferðalagi að maður þarf mun minna en maður heldur, verður nægjusamari og lærir að meta hlutina á annan hátt enda eru það góðu minningarnar og samveran sem færir manni hamingju og gleði.

6. Eitt gott sparnaðaráð fyrir námsmenn erlendis?

Þegar ég og maðurinn minn fórum í skiptinám 2001 til Vínarborgar í eitt ár, það var áður en við eignuðmst börn, þá upplifðum við meira að eiga engan pening. Það var dýrt að kinda íbúðina og þess vegna vorum við með hitann alveg í lágmarki og vorum bara í staðinn alltaf í úlpum inni og sváfum í ullarsokkum. Það er ágætis sparnaðrráð. Síðan deildum við upphæðinni sem við höfðum á hverjum mánuði niður á daga til að vita hvað við gátum eytt miklum pening í mat. Við keyptum oft pakkapasta sem var mjög ódýrt en það var reyndar ekki gott til lengdar enda mjög næringasnautt og enginn heilamatur. En okkur fannst mikilvægt að nota tækifærið og reyna að ferðast til landanna sem liggja að Austurríki enda stekkur maður ekki eins auðveldlega frá Íslandi. Við komumst að því að það var oft hægt að fá mjög ódýra miða með næturlestunum, við nýttum okkur það nokkuð. Keyptum ódýrustu miða sem við fundum og vorum svo komin undir morgun ósofin í nýtt land. Þetta voru mjög skemmtileg ferðalög og frábærar minningar sem við eigum frá þessum tíma.

7. Mælir þú með því að fólk fari í nám erlendis?

Já, hiklaust. Þetta var án efa ein sú besta ákvörðun sem ég og maðurinn minn höfum tekið. Það getur reynt á og ýtir manni vel út fyrir þægindarrammann en er svo ótrúlega þroskandi og skemmtilegt. Svíþjóð var allt öðruvísi upplifun en Austurríki. Í Austurríki vorum við barnlaus og fórum bara með tvær töskur í leit að ævintýri en þegar við fórum til Svíþjóðar þá höfðum við bæði verið að vinna hér heima áður í nokkur ár og áttum fjögurra ára son. Það var því mjög mikilvægt í því tilfelli að búa til heimili, öryggi og festu. Við vildum því búa á stað sem væri nokkuð fjölskylduvænn, þar sem stutt væri í leikskóla. Það var frábært að vera barnafjölskylda í Svíþjóð því þar er velferðarkerfið mjög gott. Dóttir okkar fæddist svo í Svíþjóð og það var líka mjög góð upplifun að eignast barn í Svíþjóð.